Kafla 92

Sálmur. Hvíldardagsljóð. (92:2)

Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 (92:3) að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 (92:4) á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 (92:5) Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
5 (92:6) Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.
6 (92:7) Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
7 (92:8) Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
8 (92:9) en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
9 (92:10) Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.
10 (92:11) En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.
11 (92:12) Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
12 (92:13) Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 (92:14) Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 (92:15) Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 (92:16) Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.