Sálmarnir
Kafla 83
Ljóð. Asafs-sálmur. (83:2)Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!
2 (83:3) Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,
3 (83:4) þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.
4 (83:5) Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"
5 (83:6) Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:
6 (83:7) Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,
7 (83:8) Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.
8 (83:9) Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]
9 (83:10) Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,
10 (83:11) þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.
11 (83:12) Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,
12 (83:13) þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."
13 (83:14) Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.
14 (83:15) Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,
15 (83:16) svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.
16 (83:17) Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!
17 (83:18) Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,
18 (83:19) að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.