Kafla 86

Davíðs-bæn.

Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.
8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,
13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.
14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.
15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.