Kafla 9

Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur. (9:2)

Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
2 (9:3) Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.
3 (9:4) Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.
4 (9:5) Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.
5 (9:6) Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.
6 (9:7) Óvinirnir eru liðnir undir lok - rústir að eilífu - og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.
7 (9:8) En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.
8 (9:9) Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
9 (9:10) Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.
10 (9:11) Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.
11 (9:12) Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
12 (9:13) Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
13 (9:14) "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
14 (9:15) að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."
15 (9:16) Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
16 (9:17) Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]
17 (9:18) Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.
18 (9:19) Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
19 (9:20) Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
20 (9:21) Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]