Sálmarnir
Kafla 56
Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat. (56:2)Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.
2 (56:3) Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.
3 (56:4) Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.
4 (56:5) Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?
5 (56:6) Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.
6 (56:7) Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.
7 (56:8) Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.
8 (56:9) Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.
9 (56:10) Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.
10 (56:11) Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.
11 (56:12) Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
12 (56:13) Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,
13 (56:14) af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.