Síðari kroníkubók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36


Kafla 28

Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, svo sem Davíð forfaðir hans,
2 heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga, og lét auk þess gjöra steypt líkneski, Baölunum til handa.
3 Hann brenndi og reykelsi í Hinnomssonardal, lét sonu sína ganga gegnum eldinn, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.
4 Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.
5 Þá gaf Drottinn, Guð hans, hann á vald Sýrlandskonungi, og unnu þeir sigur á honum og höfðu burt með sér hernumda fjöldamarga af mönnum hans, og fluttu til Damaskus. Auk þessa var hann og gefinn Ísraelskonungi á vald, og vann hann mikinn sigur á honum.
6 Og Peka Remaljason drap á einum degi í Júda hundrað og tuttugu þúsundir, allt hrausta menn, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna.
7 En Síkrí, kappi úr Efraím, drap Maaseja konungsson og Asríkam hallarstjóra og Elkana, er næstur gekk konungi.
8 Og Ísraelsmenn höfðu burt með sér tvö hundruð þúsund af herteknu fólki frá frændum sínum, konur, sonu og dætur, tók af þeim afar mikið herfang og fóru með herfangið til Samaríu.
9 En þar var spámaður Drottins, er Ódeð hét. Hann fór út, gekk fram fyrir herinn, er kom til Samaríu, og mælti til þeirra: "Sjá, af því að Drottinn, Guð feðra yðar, var reiður Júdamönnum, gaf hann þá yður á vald, svo að þér gátuð drepið þá niður með þeirri reiði, er nær til himins.
10 Og nú hyggið þér að gjöra þessa Júdamenn og Jerúsalembúa að þrælum yðar og ambáttum. En eruð þér þá eigi sjálfir sekir við Drottin, Guð yðar?
11 Hlýðið því á mig og sendið aftur fangana, er þér hafið haft burt hernumda frá frændum yðar, því að hin brennandi reiði Drottins vofir yfir yður."
12 Þá risu nokkrir af höfðingjum Efraímíta, þeir Asarja Jóhanansson, Berekía Mesillemótsson, Hiskía Sallúmsson og Amasa Hadlaíson upp í gegn þeim, er komu úr herförinni,
13 og sögðu við þá: "Þér skuluð eigi fara með fangana hingað, því að þér ætlið að auka við syndir vorar og sekt, í viðbót við sekt þá við Drottin, er á oss hvílir. Því að sekt vor er mikil, og brennandi reiði vofir yfir Ísrael."
14 Þá slepptu hermennirnir föngunum og herfanginu í viðurvist höfuðsmannanna og alls safnaðarins.
15 Gengu þá til menn þeir, er til þess voru kvaddir með nafni, og önnuðust fangana. Klæddu þeir af herfanginu alla þá, er naktir voru meðal þeirra, gáfu þeim klæði og skó og að eta og drekka og smurðu þá, settu alla þá á asna, er uppgefnir voru, og fluttu þá til Jeríkó, pálmaborgarinnar, til frænda þeirra, og sneru síðan heim aftur til Samaríu.
16 Um þessar mundir sendi Akas konungur til Assýríukonunga til þess að biðja sér liðveislu.
17 Þá komu og Edómítar, unnu sigur á Júdamönnum og færðu burt bandingja.
18 En Filistar réðust inn í borgirnar á láglendinu og í Júda sunnanverðu, tóku Bet Semes, Ajalon, Gederót og Sókó og þorpin umhverfis hana, Timna og þorpin umhverfis hana og Gimsó og þorpin umhverfis hana, og settust þar að.
19 Því að Drottinn lægði Júda sakir Akasar Ísraelskonungs, því að hann hafði framið gegndarlausa óhæfu í Júda og sýnt Drottni mikla ótrúmennsku.
20 Þá fór Tílgat-Pilneser Assýríukonungur í móti honum og kreppti að honum, en veitti honum eigi lið.
21 Því að Akas ruplaði musteri Drottins og konungshöllina og höfuðsmennina, og gaf Assýríukonungi, en það kom honum að engu haldi.
22 Og um þær mundir, sem hann kreppti að honum, sýndi hann, Akas konungur, Drottni ótrúmennsku enn að nýju.
23 Hann færði fórnir guðunum í Damaskus, þeim er höfðu unnið sigur á honum, og mæltu: "Það eru guðir Sýrlandskonunga, er hafa hjálpað þeim. Þeim vil ég færa fórnir, til þess að þeir hjálpi mér." En þeir urðu honum og öllum Ísrael til falls.
24 Og Akas safnaði saman áhöldum Guðs húss og braut sundur áhöld Guðs húss. Hann lokaði og dyrunum á musteri Drottins, en gjörði sér ölturu í hverju horni í Jerúsalem.
25 Og í sérhverri Júdaborg gjörði hann fórnarhæðir til þess að brenna reykelsi fyrir öðrum guðum, og egndi þannig Drottin, Guð feðra sinna, til reiði.
26 Það sem meira er að segja um hann og öll fyrirtæki hans, bæði fyrr og síðar, það er ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga.
27 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í borginni, í Jerúsalem, því að eigi var hann færður í grafir Ísraelskonunga. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.