Síðari kroníkubók
Kafla 15
Þá kom andi Guðs yfir Asarja Ódeðsson.
2 Gekk hann fram fyrir Asa og mælti til hans: "Hlýðið á mig, þér Asa og allur Júda og Benjamín. Drottinn er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.
3 En langan tíma hefir Ísrael verið án hins sanna Guðs, án presta, er fræddu hann, og án lögmáls.
4 Og er þeir voru í nauðum staddir, sneru þeir sér til Drottins, Ísraels Guðs, og leituðu hans, og hann gaf þeim kost á að finna sig.
5 Um þær mundir voru engar tryggðir fyrir þá, er fóru eða komu, heldur var hið mesta griðaleysi meðal allra íbúa héraðanna.
6 Þjóð rakst á þjóð og borg á borg, því að Drottinn hræddi þá með hvers konar nauðum.
7 En verið þér öruggir og látið yður eigi fallast hendur, því að breytni yðar mun umbun hljóta."
8 En er Asa heyrði orð þessi og spádóm Ódeðs spámanns, þá herti hann upp hugann og útrýmdi viðurstyggðunum úr öllu landi Júda og Benjamíns, svo og úr borgum þeim, er hann hafði unnið á Efraímfjöllum, en endurnýjaði altari Drottins, það er var frammi fyrir forsal Drottins.
9 Síðan stefndi hann saman öllum Júda og Benjamín og aðkomumönnum þeim, er hjá þeim voru af Efraím, Manasse og Símeon, því að fjöldi manna af Ísrael hafði gengið honum á hönd, er þeir sáu að Drottinn, Guð hans, var með honum.
10 Og þeir komu saman í Jerúsalem í þriðja mánuði á fimmtánda ríkisári Asa.
11 Og á þeim degi færðu þeir Drottni í sláturfórn af herfanginu, er þeir höfðu fengið: sjö hundruð naut og sjö þúsund sauði.
12 Og þeir bundust þeim sáttmála, að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni,
13 og skyldi hver sá, er eigi leitaði Drottins, Guðs Ísraels, líflátinn, yngri sem eldri, karl eða kona.
14 Sóru þeir síðan Drottni eiða með hárri röddu og lustu upp fagnaðarópi, en lúðrar og básúnur kváðu við.
15 Og allur Júda gladdist yfir eiðnum, því að þeir höfðu eið unnið af öllu hjarta sínu og leitað hans af öllum huga sínum. Gaf Drottinn þeim því kost á að finna sig og veitti þeim frið allt um kring.
16 Asa konungur svipti jafnvel Maöku, móður sína, drottningartigninni, fyrir það, að hún hafði gjöra látið hræðilegt aséru-líkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar, muldi það og brenndi það í Kídrondal.
17 En fórnarhæðirnar voru ekki afnumdar úr Ísrael. Þó var hjarta Asa óskipt alla ævi hans.
18 Hann lét og flytja í hús Guðs helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar, silfur, gull og áhöld.
19 Og enginn ófriður var fram að þrítugasta og fimmta ríkisári Asa.