Síðari kroníkubók
Kafla 14
Og Abía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. Og Asa sonur hans tók ríki eftir hann. Á hans dögum var friður í landi í tíu ár.
2 Asa gjörði það, sem gott var og rétt í augum Drottins, Guðs síns.
3 Hann afnam hin útlendu ölturu og fórnarhæðirnar, braut sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar.
4 Og hann bauð Júdamönnum að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, og breyta eftir lögmáli hans og skipunum.
5 Hann afnam hæðirnar og sólsúlurnar úr öllum Júdaborgum, og ríkið naut friðar um hans daga.
6 Hann reisti kastala í Júda, því að friður var í landi og enginn átti í ófriði við hann þau árin, því að Drottinn veitti honum frið.
7 Og hann sagði við Júdamenn: "Látum oss reisa borgir þessar og girða um þær með múrum og turnum, hurðum og slagbröndum, því að enn þá er landið oss opið, af því að vér höfum leitað Drottins, Guðs vors. Vér höfum leitað hans, og hann hefir veitt oss frið allt um kring." Byggðu þeir síðan og gekk það vel.
8 Og Asa hafði her, er skjöld bar og spjót, úr Júda þrjú hundruð þúsund og úr Benjamín tvö hundruð og áttatíu þúsund manna, er buklara báru og boga bentu. Voru þeir allir hinir mestu kappar.
9 En Sera Blálendingur fór í móti þeim með milljón hermanna og þrjú hundruð vagna og komst allt til Maresa.
10 Fór Asa út í móti honum, og fylktu þeir sér til orustu í Sefatadal hjá Maresa.
11 Og Asa ákallaði Drottin, Guð sinn, og sagði: "Drottinn, enginn nema þú getur hjálpað lítilmagnanum gegn hinum voldugu. Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, því að við þig styðjumst vér, og í þínu nafni höfum vér farið á móti þessum mannfjölda. Drottinn, þú ert vor Guð, gagnvart þér er dauðlegur maðurinn máttvana."
12 Og Drottinn lét Blálendingana bíða ósigur fyrir Asa og fyrir Júdamönnum, svo að Blálendingar flýðu.
13 En Asa og lið það, er með honum var, veittu þeim eftirför til Gerar, og féll lið af Blálendingum, svo að enginn þeirra var eftir á lífi, því að þeir féllu unnvörpum fyrir Drottni og fyrir her hans. Höfðu þeir þaðan afar mikið herfang.
14 Þeir unnu og allar borgir umhverfis Gerar, því að ótti við Drottin var kominn yfir þær. Rændu þeir síðan allar borgirnar, því að þar var miklu að ræna.
15 Þá náðu þeir og hjarðtjöldunum og höfðu á burt með sér að herfangi fjölda sauða og úlfalda, og sneru síðan aftur til Jerúsalem.