Síðari kroníkubók
Kafla 21
Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann.
2 Jóram átti bræður, sonu Jósafats: Asarja, Jehíel, Sakaría, Asarjahú, Míkael og Sefatja. Allir þessir voru synir Jósafats Ísraelskonungs.
3 Og faðir þeirra hafði gefið þeim miklar gjafir í silfri og gulli og skartgripum, svo og kastalaborgir í Júda, en konungdóminn fékk hann Jóram í hendur, því að hann var frumgetningurinn.
4 En er Jóram hafði náð völdum yfir ríki föður síns og var orðinn fastur í sessi, þá lét hann drepa alla bræður sína og auk þess nokkra af höfðingjum Ísraels með sverði.
5 Jóram var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem.
6 Og hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabsætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins.
7 En Drottinn vildi eigi afmá ætt Davíðs, sakir sáttmála þess, er hann hafði gjört við Davíð, og samkvæmt því, er hann hafði heitið, að gefa honum og niðjum hans lampa alla daga.
8 Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig.
9 Þá fór Jóram með höfðingjum sínum og öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins.
10 Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og hafa aldrei lotið þeim síðan. Þá braust og Líbna um sama leyti undan yfirráðum hans, af því að hann hafði yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna.
11 Einnig hann gjörði fórnarhæðir í Júdaborgum, ginnti Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar og tældi Júda.
12 Þá kom til hans bréf frá Elía spámanni, er svo hljóðaði: "Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Sakir þess að þú fetaðir eigi í fótspor Jósafats föður þíns og Asa Júdakonungs,
13 heldur fetaðir í fótspor Ísraelskonunga og ginntir Júda og Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar, eins og Akabsætt ginnti menn til skurðgoðadýrkunar, og lést auk þessa drepa bræður þína, ættmenn þína, er betri voru en þú,
14 þá mun Drottinn ljósta lýð þinn, sonu þína og konur og alla eign þína áfelli miklu.
15 En sjálfur munt þú taka sjúkleik, iðrakvöl, uns iður þín loks falla út af sjúkdóminum."
16 Og Drottinn æsti reiði Filista og Araba, þeirra er búa hjá Blálendingum, gegn Jóram,
17 svo að þeir fóru herför gegn Júda, brutust inn og höfðu burt með sér að herfangi allt fémætt, er var í konungshöllinni, og auk þess sonu hans og konur. Varð enginn eftir af sonum hans nema Jóahas, er var yngstur sona hans.
18 En ofan á allt þetta laust Drottinn hann með ólæknandi iðrasjúkleik.
19 Og eftir alllangan tíma, að liðnum nær tveim árum, féllu iður hans út af sjúkdóminum, og dó hann eftir miklar þjáningar. En þjóð hans gjörði ekkert bál honum til heiðurs eins og feðrum hans.
20 Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem. Fór hann svo, að enginn óskaði hans aftur, og var hann jarðaður í Davíðsborg, þó eigi í konungagröfunum.