Jeremía
Kafla 34
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þá er Nebúkadresar Babelkonungur og allur her hans og öll konungsríki jarðarinnar, þau er lutu hans valdi, og allar þjóðirnar herjuðu á Jerúsalem og allar borgir umhverfis hana:
2 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Far og mæl til Sedekía Júdakonungs og seg við hann: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel borg þessa á vald Babelkonungs, til þess að hann brenni hana í eldi,
3 og þú munt sjálfur ekki komast undan honum, en áreiðanlega gripinn verða og framseldur á hans vald, og augu þín munu líta augu Babelkonungs og munnur hans tala við þinn munn, og til Babýlon munt þú fara.
4 En heyr orð Drottins, Sedekía Júdakonungur: Svo segir Drottinn um þig: Þú skalt ekki deyja fyrir sverði.
5 Í friði munt þú deyja, og eins og brennt var ilmreykelsi við jarðarför feðra þinna, hinna fyrri konunga, sem voru á undan þér, eins munu menn brenna þér til heiðurs og harma þig og segja: "Æ, drottnari!" því að það hefi ég talað - segir Drottinn.
6 Jeremía spámaður talaði öll þessi orð við Sedekía Júdakonung í Jerúsalem,
7 þá er her Babelkonungs herjaði á Jerúsalem og allar Júdaborgir, sem enn voru eftir, Lakís og Aseka. Því að þessar einar voru eftir orðnar af borgunum í Júda, af víggirtu borgunum.
8 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Sedekía konungur hafði gjört sáttmála við allan lýðinn í Jerúsalem um að boðað skyldi frelsi:
9 Hver maður skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, ef þau væru hebreskur maður og hebresk kona, svo að enginn Júdamaður hefði ættbræður sína að þrælum.
10 Og allir höfðingjarnir hlýddu því og allur lýðurinn, þeir er gengist höfðu undir sáttmálann, að hver skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, svo að hann hefði þau eigi framar að þrælum. Þeir hlýddu og gáfu þau frjáls.
11 En seinna sóttu þeir aftur þrælana og ambáttirnar, er þeir höfðu gefið frjáls, og gjörðu þau að ánauðugum þrælum og ambáttum.
12 Þá kom þetta orð Drottins til Jeremía:
13 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég gjörði svohljóðandi sáttmála við feður yðar, þá er ég flutti þá burt af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu:
14 "Að sjö árum liðnum skuluð þér hver og einn gefa lausan hebreskan bróður yðar, sem kann að hafa selt sig þér. Í sex ár skal hann vera þræll þinn, en síðan skalt þú láta hann lausan frá þér fara." En feður yðar hlýddu mér ekki og lögðu ekki við eyrun.
15 En nú tókuð þér sinnaskiptum og gjörðuð það, sem rétt var í mínum augum, með því að boða hver öðrum frelsi, og gjörðuð sáttmála fyrir mínu augliti í musterinu, sem kennt er við nafn mitt.
16 En þér hafið snúið yður aftur og vanhelgað nafn mitt, þar sem þér hafið hver og einn sótt aftur þræl sinn og ambátt, er þér höfðuð gefið algjörlega frjáls, og neytt þau til að vera þræla yðar og ambáttir.
17 Fyrir því segir Drottinn svo: Þér hafið eigi hlýtt mér um að boða frelsi, hver sínum bróður og hver sínum náunga. Sjá, ég ætla því að boða yður frelsi - segir Drottinn - svo að þér verðið ofurseldir sverðinu, drepsóttinni og hungrinu, og ég gjöri yður að grýlu öllum konungsríkjum jarðar.
18 Ég framsel þá menn, er brotið hafa sáttmála minn, og eigi hafa haldið orð sáttmálans, er þeir gjörðu fyrir mínu augliti, þá er þeir slátruðu kálfinum, sem þeir skáru í tvennt og gengu á milli hlutanna, -
19 höfðingja Júda og höfðingja Jerúsalem, hirðmennina og prestana og allan landslýðinn, er gengið hafa milli hluta kálfsins.
20 Ég sel þá á vald óvina þeirra og á vald þeirra, sem sækjast eftir lífi þeirra, og lík þeirra skulu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar.
21 En Sedekía konung í Júda og höfðingja hans sel ég á vald óvinum þeirra og á vald þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og á vald her Babelkonungs, þeim sem nú eru frá yður farnir.
22 Sjá, ég mun gefa þeim skipun - segir Drottinn - og láta þá koma aftur til þessarar borgar, til þess að þeir herji á hana, vinni hana og brenni hana í eldi, og borgirnar í Júda gjöri ég að auðn, svo að enginn búi í þeim.