Jeremía
Kafla 33
Og orð Drottins kom til Jeremía annað sinn, þá er hann enn var innilokaður í varðgarðinum:
2 Svo segir Drottinn, sá er framkvæmir það, Drottinn, sá er upphugsar það, til þess að koma því til vegar - Drottinn er nafn hans:
3 Kalla þú á mig og mun ég svara þér og kunngjöra þér mikla hluti og óskiljanlega, er þú hefir eigi þekkt.
4 Já, svo segir Drottinn, Ísraels Guð, um hús þessarar borgar og um hallir Júdakonunga, sem rifin voru niður vegna hervirkjanna og sverðsins:
5 Það koma einhverjir til þess að berjast gegn Kaldeum og til þess að fylla húsin líkum þeirra manna, er ég hefi lostið í reiði minni og heift, því ég hefi byrgt auglit mitt fyrir þessari borg sakir allrar illsku þeirra.
6 Sjá, ég legg við hana umbúðir og græðslulyf og lækna þá og opna þeim gnægð stöðugrar hamingju,
7 og ég leiði heim aftur hina herleiddu frá Júda og hina herleiddu frá Ísrael og byggi þá upp aftur eins og áður.
8 Og ég hreinsa þá af allri misgjörð þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og fyrirgef þeim allar misgjörðir þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og uppreisn þeirra gegn mér,
9 til þess að borgin verði mér til frægðar, til ununar, til lofs og dýrðar hjá öllum þjóðum jarðarinnar, sem spyrja munu öll þau gæði, er ég veiti þeim, og skelfast munu og titra vegna allra þeirra gæða og allrar þeirrar hamingju, sem ég veiti henni.
10 Svo segir Drottinn: Á þessum stað, er þér segið um: "Hann er eyddur, mannlaus og skepnulaus!" í borgum Júda og á Jerúsalemstrætum, sem nú eru gjöreydd, mannlaus, íbúalaus og skepnulaus,
11 skulu aftur heyrast ánægjuhljóð og gleðihljóð, fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, fagnaðarlæti þeirra, er færa þakkarfórn í musteri Drottins og segja: Þakkið Drottni allsherjar, því að Drottinn er góður, því að miskunn hans varir að eilífu! Því að ég mun leiða hið herleidda fólk landsins heim aftur, til þess að þeir séu eins og áður, segir Drottinn.
12 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn skal á þessum stað, sem nú er eyddur, bæði mannlaus og skepnulaus, og í öllum borgum hans vera haglendi fyrir hjarðmenn, sem bæla þar hjarðir sínar.
13 Í fjallborgunum, í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu og í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í Júdaborgum munu enn sauðir renna fram hjá þeim, sem telur þá, segir Drottinn.
14 Sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég mun láta rætast fyrirheit það, er ég hefi gefið um Ísraels hús og Júda hús.
15 Á þeim dögum og á þeim tíma mun ég Davíð láta upp vaxa réttan kvist, og hann skal iðka rétt og réttlæti í landinu.
16 Á þeim dögum mun Júda hólpinn verða og Jerúsalem búa óhult, og þetta mun verða nafnið, er menn nefna hana: "Drottinn er vort réttlæti."
17 Svo segir Drottinn: Davíð skal aldrei vanta eftirmann, sem sitji í hásæti Ísraels húss.
18 Og levítaprestana skal aldrei vanta eftirmann frammi fyrir mér, er framberi brennifórnir, brenni matfórnum og fórni sláturfórnum alla daga.
19 Og orð Drottins kom til Jeremía:
20 Svo segir Drottinn: Svo sannarlega sem þér getið ekki rofið sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina, svo að dagur og nótt komi ekki á sínum tíma,
21 svo sannarlega mun sáttmáli minn við Davíð þjón minn eigi rofinn verða, svo að hann hafi ekki niðja, er ríki í hásæti hans, og við prestalevítana, þjóna mína.
22 Eins og himinsins her verður ekki talinn og sjávarsandurinn ekki mældur, svo vil ég margfalda niðja Davíðs þjóns míns og levítana, er mér þjóna.
23 Og orð Drottins kom til Jeremía:
24 Hefir þú ekki tekið eftir, hvað þessi lýður talar, er hann segir: "Báðum ættkvíslunum, sem Drottinn útvaldi, hefir hann hafnað!" og að þeir segja fyrirlitlega um lýð minn, að hann sé ekki þjóð framar í þeirra augum?
25 Svo segir Drottinn: Ég, sem hefi gjört sáttmála við dag og nótt og sett himni og jörðu föst lög,
26 skyldi ég hafna niðjum Jakobs og Davíðs, þjóns míns? Skyldi ég leiða hjá mér að velja af niðjum hans drottnara yfir ætt Abrahams, Ísaks og Jakobs? Nei, ég mun snúa við högum þeirra og miskunna þeim.