Jeremía

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52


Kafla 27

Í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:
2 Svo sagði Drottinn við mig: Gjör þér bönd og ok og legg um háls þér
3 og gjör konunginum í Edóm og konunginum í Móab og konungi Ammóníta og konunginum í Týrus og konunginum í Sídon orðsending með sendimönnunum, sem komnir eru til Jerúsalem til Sedekía Júdakonungs,
4 og bjóð þeim að mæla svo til herra sinna: "Svo sagði Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við herra yðar:
5 Ég hefi gjört jörðina og mennina og skepnurnar, sem á jörðinni eru, með mínum mikla mætti og útrétta armlegg, og ég gef þetta þeim, er mér þóknast.
6 Og nú gef ég öll þessi lönd á vald Nebúkadnesars Babelkonungs, þjóns míns. Jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum, til þess að þau þjóni honum.
7 Og allar þjóðir skulu þjóna honum og syni hans og sonarsyni hans, þar til er einnig tími hans lands kemur og voldugar þjóðir og miklir konungar gjöra hann að þræl sínum.
8 Og sú þjóð og það konungsríki, sem ekki vill þjóna honum, Nebúkadnesar Babelkonungi, og ekki beygja háls sinn undir ok Babelkonungs, þeirrar þjóðar mun ég vitja með sverði, hungri og drepsótt - segir Drottinn - uns ég hefi gjöreytt þeim fyrir hans hendi.
9 Hlýðið ekki á spámenn yðar né spásagnarmenn, né drauma yðar, né á galdramenn yðar né töframenn, þá er þeir mæla til yðar á þessa leið: ,Þér munuð ekki þjóna Babelkonungi.'
10 Því að þeir boða yður lygar til þess að flæma yður úr landi yðar, svo að ég reki yður burt og þér farist.
11 En þá þjóð, sem beygir háls sinn undir ok Babelkonungs og þjónar honum, hana vil ég láta vera kyrra í landi sínu - segir Drottinn - til þess að hún yrki það og byggi."
12 Og við Sedekía Júdakonung talaði ég öldungis á sama hátt: "Sveigið háls yðar undir ok Babelkonungs og þjónið honum og þjóð hans, þá munuð þér lífi halda.
13 Hví viljið þér, þú og þjóð þín, deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt, eins og Drottinn hefir hótað þeim þjóðum, er eigi vilja þjóna Babelkonungi?
14 Hlýðið eigi á orð spámannanna, er segja við yður: ,Þér munuð eigi þjóna Babelkonungi!' Því að þeir boða yður lygar.
15 Því að ég hefi ekki sent þá - segir Drottinn - heldur spá þeir ranglega í mínu nafni, til þess að ég reki yður burt og þér farist, ásamt spámönnunum, er yður hafa spáð."
16 Við prestana og allan þennan lýð hefi ég og talað á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Hlýðið eigi á orð spámanna yðar, er spá yður og segja: ,Sjá, áhöldin úr musteri Drottins munu bráðlega verða flutt heim aftur frá Babýlon!' - því að þeir boða yður lygar.
17 Hlýðið eigi á þá. Þjónið heldur Babelkonungi, þá munuð þér lífi halda! Hví á þessi borg að verða að rúst?
18 En séu þeir spámenn og sé orð Drottins hjá þeim, þá biðja þeir Drottin allsherjar, að áhöld þau, sem enn eru eftir í musteri Drottins og í höll Júdakonungs og í Jerúsalem, fari eigi líka til Babýlon.
19 Því að svo segir Drottinn allsherjar um súlurnar, um hafið og um undirstöðupallana og um hin önnur áhöld, sem eftir eru í þessari borg,
20 þau er Nebúkadnesar Babelkonungur ekki tók, þá er hann herleiddi Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, frá Jerúsalem til Babýlon, ásamt öllum tignarmönnum Júda og Jerúsalem,
21 já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um áhöldin, sem eftir eru í musteri Drottins og höll Júdakonungs og í Jerúsalem:
22 Til Babýlon skulu þau flutt verða og þar skulu þau vera, allt til þess dags, er ég vitja þeirra - segir Drottinn - og sæki þau og flyt þau aftur á þennan stað.