Jeremía
Kafla 21
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þegar Sedekía konungur sendi þá Pashúr Malkíason og Sefanía prest Maasejason til hans með þessa orðsendingu:
2 "Nebúkadresar Babelkonungur herjar á oss. Gakk til frétta við Drottin fyrir oss, hvort Drottinn muni við oss gjöra samkvæmt öllum sínum dásemdarverkum, svo að hann fari burt frá oss aftur."
3 Þá sagði Jeremía við þá: "Segið svo Sedekía:
4 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Sjá, ég sný við hervopnunum í höndum yðar, sem þér berjist með við Babelkonung og við Kaldea, sem að yður kreppa fyrir utan borgarmúrinn. Ég safna þeim saman inni í þessari borg,
5 og ég mun sjálfur berjast við yður með útréttri hendi og sterkum armlegg og með reiði, heift og mikilli gremi.
6 Ég mun ljósta íbúa þessarar borgar, bæði menn og skepnur, þeir skulu deyja af mikilli drepsótt.
7 En eftir það - segir Drottinn - mun ég selja Sedekía Júdakonung og þjóna hans og lýðinn, þá er eftir verða í þessari borg eftir drepsóttina, sverðið og hungrið, í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur óvina þeirra og í hendur þeirra, er sækjast eftir lífi þeirra, og hann mun drepa þá með sverðseggjum hlífðarlaust, vægðarlaust og miskunnarlaust."
8 En við lýð þennan skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Sjá, ég legg fyrir yður veg lífsins og veg dauðans.
9 Þeir sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir sem fara út og ganga á vald Kaldeum, sem að yður kreppa, þeir munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi.
10 Því að ég hefi snúið andliti mínu gegn þessari borg, til óheilla og ekki til heilla - segir Drottinn. Hún skal ofurseld verða Babelkonungi, og hann skal brenna hana í eldi.
11 Um hús konungsins í Júda. Heyrið orð Drottins! Davíðs hús,
12 svo segir Drottinn: Haldið rétt að morgni dags og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans, til þess að heiftarreiði mín brjótist ekki út eins og eldur og brenni, svo að enginn fái slökkt sakir illverka yðar!
13 Sjá, ég skal finna þig, þú sem býr í dalnum, kletturinn á sléttunni - segir Drottinn - yður sem segið: "Hver skyldi koma ofan gegn oss og hver skyldi brjótast inn í bústaði vora?"
14 Og ég skal vitja yðar samkvæmt ávöxtum verka yðar - segir Drottinn - og leggja eld í skóg yðar, og hann skal eyða öllu, sem umhverfis hana er.