Jesaja
Kafla 32
Þegar konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi,
2 þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.
3 Þá eru augu hinna sjáandi eigi afturlukt, og þá hlusta eyru þeirra, sem heyrandi eru.
4 Hjörtu hinna gálausu munu læra hyggindi og tunga hinna mállausu tala liðugt og skýrt.
5 Þá verður heimskinginn eigi framar kallaður göfugmenni og hinn undirföruli eigi sagður veglyndur.
6 Heimskinginn talar heimsku og hjarta hans býr mönnum ógæfu, með því að hann breytir óguðlega og talar villu gegn Drottni, lætur hinn hungraða vera svangan og gefur eigi þyrstum manni vatnsdrykk.
7 Vopn hins undirförula eru skaðvænleg. Hann hugsar upp pretti til þess að koma hinum umkomulausa á kné með lygaræðum, og það jafnvel þótt hinn fátæki sanni rétt sinn.
8 En göfugmennið hefir göfugleg áform og stendur stöðugur í því, sem göfuglegt er.
9 Þér áhyggjulausu konur, standið upp og heyrið raust mína! Þér ugglausu dætur, gefið gaum að ræðu minni:
10 Eftir ár og daga skulu þér hinar ugglausu skelfast, því að vínberjatekjan bregst og aldintekja verður engin.
11 Hræðist, þér hinar áhyggjulausu! Skelfist, þér hinar ugglausu! Farið af klæðum og verið naktar, gyrðið hærusekk um lendar yðar,
12 berið yður hörmulega vegna akranna, vegna hinna yndislegu akra, vegna hins frjósama vínviðar,
13 vegna akurlendis þjóðar minnar þar sem vaxa munu þyrnar og þistlar, já vegna allra glaðværðarhúsanna í hinni glaummiklu borg!
14 Því að hallirnar munu verða mannauðar og hávaði borgarinnar hverfa. Borgarhæðin og varðturninn verða hellar um aldur og ævi, skógarösnum til skemmtunar og hjörðum til hagbeitar -
15 uns úthellt verður yfir oss anda af hæðum. Þá skal eyðimörkin verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur,
16 réttvísin festa byggð í eyðimörkinni og réttlætið taka sér bólfestu í aldingarðinum.
17 Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu.
18 Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum.
19 En hegla mun þegar skógurinn hrynur og borgin steypist.
20 Sælir eruð þér, sem alls staðar sáið við vötn og látið uxa og asna ganga sjálfala.