Jesaja
Kafla 3
Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar sviptir Jerúsalem og Júda hverri stoð og styttu, allri stoð brauðs og allri stoð vatns,
2 hetjum og hermönnum, dómendum og spámönnum, spásagnamönnum og öldungum,
3 höfuðsmönnum, virðingamönnum, ráðgjöfum, hugvitsmönnum og kunnáttumönnum.
4 Ég vil fá þeim ungmenni fyrir höfðingja, og smásveinar skulu drottna yfir þeim.
5 Á meðal fólksins skal maður manni þrengja. Ungmennið mun hrokast upp í móti öldungnum og skrílmennið upp í móti tignarmanninum.
6 Þegar einhver þrífur í bróður sinn í húsi föður síns og segir: "Þú átt yfirhöfn, ver þú stjórnari vor, og þetta fallandi ríki skal vera undir þinni hendi,"
7 þá mun hann á þeim degi hefja upp raust sína og segja: "Ég vil ekki vera sáralæknir, og í húsi mínu er hvorki til brauð né klæði. Gjörið mig ekki að þjóðstjóra."
8 Jerúsalem er að hruni komin og Júda er að falla, af því að tunga þeirra og athæfi var gegn Drottni til þess að storka dýrðaraugum hans.
9 Andlitssvipur þeirra vitnar í gegn þeim, og þeir gjöra syndir sínar heyrinkunnar, eins og Sódóma, og leyna þeim ekki. Vei þeim, því að þeir hafa bakað sjálfum sér ógæfu.
10 Heill hinum réttlátu, því að þeim mun vel vegna, því að þeir munu njóta ávaxtar verka sinna.
11 Vei hinum óguðlega, honum mun illa vegna, því að honum mun goldið verða eftir tilgjörðum hans.
12 Harðstjóri þjóðar minnar er drengur, og konur drottna yfir henni. Þjóð mín, leiðtogar þínir leiða þig afleiðis og villa fyrir þér veginn.
13 Drottinn gengur fram til að sækja sökina, hann stendur frammi til að dæma þjóðirnar.
14 Drottinn gengur fram til dóms í gegn öldungum lýðs síns og höfðingjum hans: "Það eruð þér, sem hafið etið upp víngarðinn. Rændir fjármunir fátæklinganna eru í húsum yðar.
15 Hvernig getið þér fengið af yður að fótum troða lýð minn og merja sundur andlit hinna snauðu," - segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.
16 Drottinn sagði: Sökum þess að dætur Síonar eru drembilátar og ganga hnakkakerrtar, gjóta út undan sér augunum og tifa í göngunni og láta glamra í ökklaspennunum,
17 þá mun Drottinn gjöra kláðugan hvirfil Síonar dætra og gjöra bera blygðan þeirra.
18 Á þeim degi mun Drottinn burt nema skart þeirra: ökklaspennurnar, ennisböndin, hálstinglin,
19 eyrnaperlurnar, armhringana, andlitsskýlurnar,
20 motrana, ökklafestarnar, beltin, ilmbaukana, töfraþingin,
21 fingurgullin, nefhringana,
22 glitklæðin, nærklæðin, möttlana og pyngjurnar,
23 speglana, líndúkana, vefjarhettina og slæðurnar.
24 Koma mun ódaunn fyrir ilm, reiptagl fyrir belti, skalli fyrir hárfléttur, aðstrengdur hærusekkur í stað skrautskikkju, brennimerki í stað fegurðar.
25 Menn þínir munu fyrir sverði falla og kappar þínir í orustu.
26 Hlið borgarinnar munu kveina og harma, og hún sjálf mun sitja einmana á jörðinni.