Jesaja
Kafla 23
Spádómar um Týrus. Kveinið, þér Tarsisknerrir, því að hún er í eyði lögð! Ekkert hús þar framar, ekkert til að fara inn í! Frá Kýpur berst þeim sú fregn.
2 Verið hljóðir, þér íbúar eyborgarinnar, sem full var af kaupmönnum frá Sídon, er yfir hafið fara,
3 og dró að sér Síkor-sáð og Nílarkorn yfir hin miklu höf og var kauptún þjóðanna!
4 Fyrirverð þig, sæborgin Sídon, því særinn segir: "Eigi hefi ég verið jóðsjúkur og eigi fætt, og eigi hefi ég fóstrað yngismenn né uppalið meyjar."
5 Þegar fregnin kemur til Egyptalands, munu þeir skelfast af fregninni um Týrus.
6 Farið yfir til Tarsis og kveinið, þér íbúar eyborgarinnar.
7 Er þetta glaummikla borgin yðar, sem rekur uppruna sinn fram til fornaldar daga og stikað hefir langar leiðir til þess að taka sér bólfestu?
8 Hver hefir ályktað svo um Týrus, um hana, sem ber höfuðdjásnið, þar sem kaupmennirnir voru höfðingjar og verslunarmennirnir tignustu menn á jörðu?
9 Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta til þess að ósæma allt hið dýrlega skraut og lægja alla hina tignustu menn á jörðu.
10 Flæð yfir land þitt eins og Nílfljótið, Tarsisdóttir, engir flóðgarðar eru framar til.
11 Drottinn rétti hönd sína út yfir hafið, skelfdi konungsríki. Hann bauð að gjöreyða varnarvirki Kanaans.
12 Hann sagði: Þú skalt aldrei framar leika af kæti, þú spjallaða mey, Sídondóttir. Statt upp og far yfir til Kýprus; þú skalt ekki heldur finna þar hvíld.
13 Sjá land Kaldea, það er þjóðin, sem orðin er að engu. Assýringar hafa fengið það urðarköttum. Þeir reistu vígturna sína, rifu niður hallirnar, gjörðu landið að rústum.
14 Kveinið, þér Tarsis-knerrir, því að varnarvirki yðar er lagt í eyði.
15 Á þeim dögum skal Týrus gleymast í sjötíu ár, eins og um daga eins konungs. En að liðnum sjötíu árum mun fara fyrir Týrus eins og segir í skækjukvæðinu:
16 Tak gígjuna, far um alla borgina, þú gleymda skækja! Leik fagurlega, syng hátt, svo að eftir þér verði munað!
17 Að liðnum þeim sjötíu árum mun Drottinn vitja Týrusar. Mun hún þá aftur fá skækjulaun sín og hórast með öllum konungsríkjum veraldarinnar, þeim sem á jörðinni eru;
18 en aflafé hennar og skækjulaun skulu helguð verða Drottni. Það skal ekki verða lagt í sjóð eða geymt, því að þeir, sem búa frammi fyrir augliti Drottins, skulu fá aflafé hennar sér til fæðslu og saðningar og sæmilegs klæðnaðar.