Jesaja
Kafla 25
Drottinn, þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.
2 Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur.
3 Þess vegna munu harðsnúnar þjóðir heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.
4 Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir,
5 glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu, og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.
6 Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.
7 Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir.
8 Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að Drottinn hefir talað það.
9 Á þeim degi mun sagt verða: "Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!"
10 Hönd Drottins mun hvíla yfir þessu fjalli, en Móab verða fótum troðinn þar sem hann er, eins og hálmur er troðinn niður í haugpolli.
11 Og hann mun breiða út hendur sínar niðri í pollinum, eins og sundmaður gjörir til þess að taka sundtökin. En hann mun lægja dramb hans þrátt fyrir brögð handa hans.
12 Vígi þinna háu múra mun hann að velli leggja, steypa því niður og varpa til jarðar, ofan í duftið.