Jósúabók
Kafla 18
Allur söfnuður Ísraelsmanna safnaðist saman í Síló, og reistu þeir þar samfundatjaldið, enda höfðu þeir nú lagt landið undir sig.
2 En enn þá voru eftir sjö ættkvíslir meðal Ísraelsmanna, sem eigi höfðu skipt arfleifð sinni.
3 Jósúa sagði þá við Ísraelsmenn: "Hversu lengi ætlið þér að vera svo tómlátir, að fara ekki og taka til eignar land það, sem Drottinn, Guð feðra yðar, hefir gefið yður?
4 Veljið nú þrjá menn af ættkvísl hverri, og mun ég senda þá út. Skulu þeir halda af stað og fara um landið og skrifa lýsingu á landinu með tilliti til þess, að því á að skipta meðal þeirra. Skulu þeir síðan koma aftur til mín.
5 Því næst skulu þeir skipta því í sjö hluti. Júda skal halda sínu landi í suðri, og hús Jósefs skal halda sínu landi í norðri.
6 En þér skuluð skrifa lýsingu landsins í sjö hlutum og færa mér hingað, síðan mun ég varpa hlutum fyrir yður hér frammi fyrir augliti Drottins, Guðs vors.
7 En levítarnir fá eigi hlut meðal yðar, heldur er prestdómur Drottins óðal þeirra. En Gað og Rúben og hálf ættkvísl Manasse hafa fengið sinn erfðahluta hinumegin Jórdanar, austanmegin, þann er Móse, þjónn Drottins, gaf þeim."
8 Þá tóku mennirnir, er fóru að skrifa lýsingu landsins, sig upp og héldu af stað, og Jósúa bauð þeim og mælti: "Farið nú og ferðist um landið og skrifið lýsingu þess, komið síðan aftur til mín. Mun ég þá varpa hlutum fyrir yður hér frammi fyrir Drottni í Síló."
9 Og mennirnir héldu af stað og fóru um landið og skrifuðu lýsingu þess í bók eftir borgunum í sjö hlutum. Síðan komu þeir til Jósúa í herbúðirnar í Síló.
10 Og Jósúa varpaði hlutum fyrir þá í Síló frammi fyrir Drottni, og Jósúa skipti þar landinu meðal Ísraelsmanna eftir skiptingu þeirra.
11 Kom nú upp hlutur kynkvíslar Benjamíns sona eftir ættum þeirra, og lá það land, er þeim hlotnaðist, milli Júda sona og Jósefs sona.
12 Landamerki þeirra að norðanverðu lágu frá Jórdan og upp á hálsinn fyrir norðan Jeríkó, og þaðan vestur á fjöllin og alla leið til eyðimerkurinnar hjá Betaven.
13 Þaðan lágu landamerkin yfir til Lúz, yfir á hálsinn fyrir sunnan Lúz, það er Betel. Þaðan lágu landamerkin niður til Aterót Addar, yfir á fjallið, sem er fyrir sunnan Bet Hóron neðri.
14 Þá beygðust landamerkin við og lágu í suðvestur frá fjallinu, sem er fyrir sunnan Bet Hóron, og lágu alla leið til Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím, borg Júda sona. Þetta voru vesturtakmörkin.
15 Suðurtakmörkin lágu frá útjaðrinum á Kirjat Jearím, og lágu þau í vestur og gengu út að Neftóa vatnslind.
16 Þá lágu landamerkin niður að enda fjallsins, sem liggur andspænis Hinnomssonardal og norðanvert í Refaímdal, þaðan niður Hinnomsdal að Jebúsíta-öxl sunnanverðri, og þaðan niður að Rógel-lind.
17 Þaðan beygðust þau norður á við og lágu til En-Semes, og þaðan til Gelílót, sem liggur þar gegnt sem upp er gengið til Adúmmím, þaðan niður til steins Bóhans, Rúbenssonar,
18 þaðan yfir á hálsinn, sem liggur gegnt Araba norðanvert, og þaðan niður til Araba.
19 Þaðan lágu landamerkin norðan fram með hálsinum hjá Bet Hogla og alla leið að nyrstu vík Saltasjós, þar sem Jórdan fellur suður í hann. Þetta voru suðurtakmörkin.
20 Að austanverðu réð Jórdan mörkum. Þessi voru landamærin hringinn í kringum arfleifð Benjamíns, eftir ættum þeirra.
21 Borgir kynkvíslar Benjamíns sona, eftir ættum þeirra, voru: Jeríkó, Bet Hogla, Emek Kesís,
22 Bet Araba, Semaraím, Betel,
23 Avím, Para, Ofra,
24 Kefar Ammóní, Ofní og Geba, tólf borgir og þorpin er að liggja.
25 Gíbeon, Rama, Beerót,
26 Mispe, Kefíra, Mósa,
27 Rekem, Jirpeel, Tarala,
28 Sela, Elef, Jebúsítaborg, það er Jerúsalem, Gíbeat og Kirjat, fjórtán borgir og þorpin er að liggja. Þetta var arfleifð Benjamíns sona eftir ættum þeirra.