Jósúabók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24


Kafla 16

Síðan kom upp hlutur Jósefs sona, og hlutu þeir land austan frá Jórdan, gegnt Jeríkó, til Jeríkóvatna, eyðimörkina, sem liggur frá Jeríkó upp á Betelfjöll.
2 Frá Betel lágu landamerkin til Lúz, þaðan yfir til lands Arkíta, til Atarót,
3 þaðan ofan á við og í vestur, til lands Jafletíta, að landamærum Bet Hóron neðri og allt til Geser, og þaðan alla leið til sjávar.
4 Synir Jósefs, Manasse og Efraím, fengu óðal sitt.
5 Þetta var land Efraíms sona, eftir ættum þeirra: Takmörk ættaróðals þeirra voru að austan Aterót Addar til Bet Hóron efri,
6 og takmörkin lágu út að hafi. Að norðan var Mikmetat, þaðan beygðu landamerkin af austur á við til Taanat Síló og þar fram hjá austur fyrir Janóha.
7 En frá Janóha lágu þau ofan á við til Atarót og Naarat, lentu hjá Jeríkó og lágu þaðan að Jórdan.
8 Frá Tappúa lágu landamerkin í vestur til Kana-lækjar og þaðan alla leið til sjávar. Þetta er óðal kynkvíslar Efraíms sona, eftir ættum þeirra,
9 auk þess borgirnar, sem skildar voru frá handa Efraíms sonum í ættaróðali Manasse sona - allar borgirnar og þorpin, er að lágu.
10 En ekki ráku þeir burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser. Fyrir því búa Kanaanítar meðal Efraíms fram á þennan dag og urðu vinnuskyldir þrælar.