Fjórða Mósebók
Kafla 3
Þessir voru niðjar Arons og Móse, þá er Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli.
2 Þessi voru nöfn Arons sona: Nadab frumgetinn og Abíhú, Eleasar og Ítamar.
3 Þessi voru nöfn Arons sona, hinna smurðu presta, sem vígðir voru til prestsþjónustu,
4 en þeir Nadab og Abíhú dóu fyrir augliti Drottins, þá er þeir báru óvígðan eld fram fyrir Drottin í Sínaí-eyðimörk; en þeir áttu enga sonu. Þeir Eleasar og Ítamar þjónuðu því í prestsembætti frammi fyrir Aroni, föður sínum.
5 Drottinn talaði við Móse og sagði:
6 "Lát þú ættkvísl Leví koma og leið þú hana fyrir Aron prest, að þeir þjóni honum.
7 Þeir skulu annast það, sem annast þarf fyrir hann, og það, sem annast þarf fyrir allan söfnuðinn fyrir framan samfundatjaldið, og gegna þjónustu í búðinni.
8 Og þeir skulu sjá um öll áhöld samfundatjaldsins og það, sem annast þarf fyrir Ísraelsmenn, og gegna þjónustu í búðinni.
9 Og þú skalt gefa levítana Aroni og sonum hans. Þeir eru honum gefnir af Ísraelsmönnum til fullkominnar eignar.
10 En Aron og sonu hans skalt þú setja til þess að annast prestsembætti, og komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða."
11 Drottinn talaði við Móse og sagði:
12 "Sjá, ég hefi tekið levítana af Ísraelsmönnum í stað allra frumburða Ísraelsmanna, þá er opna móðurlíf, og skulu levítarnir vera mín eign.
13 Því að ég á alla frumburði. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér alla frumburði í Ísrael, bæði menn og skepnur. Mínir skulu þeir vera. Ég er Drottinn."
14 Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk og sagði:
15 "Tel þú sonu Leví eftir ættum þeirra og kynkvíslum. Alla karlmenn mánaðargamla og þaðan af eldri skalt þú telja."
16 Og Móse taldi þá að boði Drottins, eins og fyrir hann var lagt.
17 Þessir voru synir Leví eftir nöfnum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí.
18 Þessi eru nöfn Gersons sona eftir kynkvíslum þeirra: Libní og Símeí.
19 Synir Kahats eftir kynkvíslum þeirra: Amram og Jísehar, Hebron og Ússíel.
20 Synir Merarí eftir kynkvíslum þeirra: Mahelí og Músí. Þessar eru kynkvíslir Leví eftir ættum þeirra.
21 Til Gersons telst kynkvísl Libníta og kynkvísl Símeíta. Þessar eru kynkvíslir Gersóníta.
22 Þeir er taldir voru af þeim - eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri - þeir er taldir voru af þeim, voru 7.500.
23 Kynkvíslir Gersóníta tjölduðu að baki búðarinnar, að vestanverðu.
24 Og höfuðsmaður yfir ætt Gersóníta var Eljasaf Laelsson.
25 Það sem Gersons synir áttu að annast í samfundatjaldinu, var búðin og tjaldið, þakið á því og dúkbreiðan fyrir dyrum samfundatjaldsins,
26 forgarðstjöldin og dúkbreiðan fyrir dyrum forgarðsins, sem liggur allt í kringum búðina og altarið, og stögin, sem þar til heyra - allt sem að því þurfti að þjóna.
27 Til Kahats telst kynkvísl Amramíta, kynkvísl Jíseharíta, kynkvísl Hebróníta og kynkvísl Ússíelíta. Þessar eru kynkvíslir Kahatíta.
28 Eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri, voru þeir 8.600 og höfðu á hendi að annast helgidóminn.
29 Kynkvíslir Kahats sona tjölduðu á hlið við búðina, að sunnanverðu.
30 Og ætthöfðingi yfir kynkvíslum Kahatíta var Elísafan Ússíelsson.
31 Það sem þeir áttu að annast, var örkin, borðið, ljósastikan, ölturun og hin helgu áhöld, er þeir hafa við þjónustugjörðina, og dúkbreiðan og allt, sem að því þurfti að þjóna.
32 Höfðingi yfir höfðingjum levítanna var Eleasar Aronsson prests. Hann hafði umsjón yfir þeim, er höfðu á hendi að annast helgidóminn.
33 Til Merarí telst kynkvísl Mahelíta og kynkvísl Músíta. Þessar eru kynkvíslir Merarí.
34 Og þeir er taldir voru af þeim, eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri, voru 6.200.
35 Ætthöfðingi yfir kynkvíslum Merarí var Súríel Abíhaílsson. Tjölduðu þeir á hlið við búðina, að norðanverðu.
36 Merarí sonum var falin hirðing á þiljuborðum búðarinnar, á slám hennar, stólpum og undirstöðum og öllum áhöldum hennar, og allt sem að því þurfti að þjóna,
37 á stólpum forgarðsins allt í kring og undirstöðum þeirra, hælum og stögum.
38 Fyrir framan búðina, að austanverðu, fyrir framan samfundatjaldið, móti upprás sólar, tjölduðu þeir Móse og Aron og synir hans, og höfðu á hendi að annast helgidóminn, það er annast þurfti fyrir Ísraelsmenn. En komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða.
39 Allir þeir er taldir voru af levítunum, sem þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins, eftir kynkvíslum þeirra - allir karlkyns, mánaðargamlir og þaðan af eldri, voru 22.000.
40 Drottinn sagði við Móse: "Tel þú alla frumburði karlkyns meðal Ísraelsmanna, mánaðargamla og þaðan af eldri, og haf þú tölu á nöfnum þeirra.
41 Og þú skalt taka levítana mér til handa - ég er Drottinn - í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna, og fénað levítanna í stað allra frumburða af fénaði Ísraelsmanna."
42 Móse taldi, svo sem Drottinn hafði boðið honum, alla frumburði meðal Ísraelsmanna.
43 Og allir frumburðir karlkyns, eftir nafnatölu, mánaðargamlir og þaðan af eldri, þeir er taldir voru af þeim, voru 22.273.
44 Drottinn talaði við Móse og sagði:
45 "Tak þú levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna og fénað levítanna í stað fénaðar þeirra, og skulu levítarnir vera mín eign. Ég er Drottinn.
46 Og að því er snertir lausnargjald þeirra tvö hundruð sjötíu og þriggja, þeirra af frumburðum Ísraelsmanna, sem umfram eru levítana,
47 þá skalt þú taka fimm sikla fyrir hvert höfuð. Eftir helgidómssikli skalt þú taka, tuttugu gerur í sikli.
48 Og þú skalt fá Aroni og sonum hans féð til lausnar þeim, sem umfram eru meðal þeirra."
49 Og Móse tók lausnargjaldið af þeim, er umfram voru þá, er leystir voru fyrir levítana.
50 Tók hann féð af frumburðum Ísraelsmanna, eitt þúsund þrjú hundruð sextíu og fimm sikla, eftir helgidóms sikli.
51 Og Móse seldi lausnargjaldið Aroni og sonum hans í hendur eftir boði Drottins, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.