Fjórða Mósebók
Kafla 29
Í sjöunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. Þann dag skal blásið í básúnur hjá yður.
2 Í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin skuluð þér þá fórna einu ungneyti, einum hrút og sjö veturgömlum sauðkindum gallalausum.
3 Og í matfórn með þeim fínt mjöl blandað við olíu, þrjá tíundu parta með nautinu, tvo tíundu parta með hrútnum,
4 og einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda.
5 Enn fremur einn geithafur í syndafórn til þess að friðþægja fyrir yður, -
6 auk tunglkomu-brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og hinnar stöðugu brennifórnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja, að réttum sið - til þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.
7 Tíunda daginn í þessum sama sjöunda mánuði skuluð þér halda helga samkomu og fasta. Þá skuluð þér ekkert verk vinna.
8 En í brennifórn skuluð þér færa Drottni til þægilegs ilms eitt ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. Skuluð þér hafa þær gallalausar.
9 Og í matfórn með þeim fínt mjöl blandað við olíu, þrjá tíundu parta með nautinu, tvo tíundu parta með hrútnum,
10 einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda.
11 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk syndafórnar til friðþægingar, og stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja.
12 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu, heldur halda Drottni hátíð í sjö daga.
13 Þér skuluð færa í brennifórn, í eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa, þrettán ungneyti, tvo hrúta og fjórtán sauðkindur veturgamlar. Skulu þær vera gallalausar.
14 Og í matfórn með þeim fínt mjöl olíublandað, þrjá tíundu parta með hverju þeirra þrettán nauta, tvo tíundu parta með hvorum þeirra tveggja hrúta
15 og einn tíunda part með hverri þeirra fjórtán sauðkinda.
16 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.
17 Annan daginn tólf ungneyti, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,
18 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.
19 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja.
20 Þriðja daginn ellefu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,
21 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.
22 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.
23 Fjórða daginn tíu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,
24 matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.
25 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.
26 Fimmta daginn níu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,
27 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.
28 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.
29 Sjötta daginn átta naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,
30 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.
31 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnanna, er henni fylgja.
32 Sjöunda daginn sjö naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar,
33 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.
34 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.
35 Áttunda daginn skuluð þér halda hátíðastefnu. Eigi skuluð þér vinna neina stritvinnu.
36 Og þér skuluð færa í brennifórn, í eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa, eitt naut, einn hrút og sjö veturgamlar sauðkindur gallalausar,
37 matfórn og dreypifórnir með nautinu, hrútnum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið.
38 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja.
39 Þessu skuluð þér fórna Drottni á löghátíðum yðar, auk heitfórna yðar og sjálfviljafórna, hvort heldur eru brennifórnir, matfórnir, dreypifórnir eða heillafórnir."
40 Og Móse lagði að öllu leyti svo fyrir Ísraelsmenn sem Drottinn hafði boðið honum.