Fjórða Mósebók
Kafla 28
Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Bjóð þú Ísraelsmönnum og seg við þá: Þér skuluð gæta þess að færa mér á tilteknum tíma fórnargjöf mína, mat minn af eldfórnunum til þægilegs ilms, er mér ber.
3 Og þú skalt segja við þá: Þetta er eldfórnin, sem þér skuluð færa Drottni: Tvær sauðkindur veturgamlar, gallalausar, á dag í stöðuga brennifórn.
4 Annarri sauðkindinni skalt þú fórna að morgni, hinni skalt þú fórna að kveldi um sólsetur,
5 og tíunda parti úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olíuberjum, í matfórn.
6 Er það hin stöðuga brennifórn, sem færð var undir Sínaífjalli til þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.
7 Í dreypifórn skal fylgja hverri sauðkind fjórðungur úr hín. Í helgidóminum skalt þú dreypa Drottni dreypifórn af áfengum drykk.
8 Hinni sauðkindinni skalt þú fórna um sólsetur, með sömu matfórn sem um morguninn og þeirri dreypifórn, er henni fylgir, sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.
9 Á hvíldardegi skal fórna tveim sauðkindum veturgömlum gallalausum, og tveim tíundu pörtum úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og dreypifórninni, er henni fylgir.
10 Þetta er brennifórnin, sem færa skal á hverjum hvíldardegi, auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgir.
11 Á fyrsta degi hvers mánaðar skuluð þér færa Drottni í brennifórn tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar,
12 og þrjá tíundu parta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hverju nauti, tvo tíundu parta af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hrútnum,
13 og einn tíunda part af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hverri sauðkind, sem brennifórn þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa.
14 Dreypifórnirnar, er þeim fylgja, skulu vera hálf hín af víni með hverju nauti, þriðjungur úr hín með hrútnum og fjórðungur úr hín með hverri sauðkind. Þetta er brennifórnin, sem fórna skal á hverjum mánuði árið um kring.
15 Auk þess einn geithafur í syndafórn Drottni til handa. Skal fórna honum auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgir.
16 Í fyrsta mánuðinum, á fjórtánda degi mánaðarins, eru páskar Drottins.
17 Og á fimmtánda degi hins sama mánaðar er hátíð. Í sjö daga skal eta ósýrt brauð.
18 Fyrsta daginn er haldin helg samkoma. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
19 Og þér skuluð færa Drottni í eldfórn, í brennifórn tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. Skuluð þér hafa þær gallalausar.
20 Og í matfórn með þeim fínt mjöl, blandað við olíu. Skuluð þér fórna þremur tíundu pörtum með hverju nauti og tveimur tíundu pörtum með hrútnum.
21 Einum tíunda parti skalt þú fórna með hverri þeirra sjö sauðkinda.
22 Enn fremur einn hafur í syndafórn til þess að friðþægja fyrir yður.
23 Þessu skuluð þér fórna, auk morgunbrennifórnarinnar, sem fram er borin í hina stöðugu brennifórn.
24 Þessu skuluð þér fórna á degi hverjum í sjö daga sem eldfórnarmat þægilegs ilms Drottni til handa. Skal fórna því auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er honum fylgir.
25 Sjöunda daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
26 Frumgróðadaginn, þegar þér færið Drottni nýja matfórn, á viknahátíð yðar, skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
27 Og í brennifórn þægilegs ilms Drottni til handa skuluð þér færa tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar.
28 Og í matfórn með þeim fínt mjöl, blandað við olíu, þrjá tíundu parta með hverju nauti, tvo tíundu parta með hrútnum,
29 einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda;
30 einn geithafur til þess að friðþægja fyrir yður.
31 Auk hinnar stöðugu brennifórnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, skuluð þér fórna þessu, ásamt dreypifórnunum, er því fylgja. Skuluð þér hafa það gallalaust.