Þriðja Mósebók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27


Kafla 20

Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Og þú skalt segja við Ísraelsmenn: Hver sá Ísraelsmanna, eða útlendra manna, er búa í Ísrael, sem færir Mólok nokkurt afkvæmi sitt, skal líflátinn verða. Landslýður skal lemja hann grjóti.
3 Og ég vil snúa augliti mínu gegn þeim manni og uppræta hann úr þjóð sinni, fyrir þá sök að hann hefir fært Mólok afkvæmi sitt til þess að saurga helgidóm minn og vanhelga heilagt nafn mitt.
4 En ef landslýður hylmir yfir með slíkum manni, er hann færir Mólok afkvæmi sitt, og líflætur hann ekki,
5 þá vil ég snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gegn ætt hans. Og ég mun uppræta hann og alla þá, er verða honum samsekir í því að taka fram hjá með Mólok, úr þjóð þeirra.
6 Sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda til þess að taka fram hjá með þeim, gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.
7 Helgist og verið heilagir, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
8 Fyrir því skuluð þér varðveita setningar mínar og halda þær. Ég er Drottinn, sá er yður helgar.
9 Hver sá, sem bölvar föður sínum eða móður sinni, skal líflátinn verða. Föður sínum eða móður sinni hefir hann bölvað, blóðsök hvílir á honum.
10 Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hórkarlinn og hórkonan.
11 Og leggist maður með konu föður síns, þá hefir hann berað blygðan föður síns. Þau skulu bæði líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.
12 Og leggist maður með tengdadóttur sinni, þá skulu þau bæði líflátin verða. Svívirðing hafa þau framið, blóðsök hvílir á þeim.
13 Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.
14 Og taki maður bæði konu og móður hennar, þá er það óhæfa. Skal brenna hann í eldi ásamt þeim, svo að eigi gangist við óhæfa meðal yðar.
15 Og eigi maður samlag við skepnu, þá skal hann líflátinn verða, og skepnuna skuluð þér drepa.
16 Og ef kona kemur nærri einhverri skepnu til samræðis við hana, þá skalt þú deyða konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.
17 Nú tekur einhver systur sína, dóttur föður síns eða dóttur móður sinnar, og sér blygðan hennar og hún sér blygðan hans, þá er það skömm. Þau skulu upprætt verða í augsýn samlanda sinna. Blygðan systur sinnar hefir hann berað og bakað sér sekt.
18 Leggist maður með konu, sem hefir tíðir, og berar blygðan hennar - hefir beran gjört brunn hennar og hún hefir sjálf berað brunn blóðs síns -, þá skulu þau bæði upprætt verða úr þjóð sinni.
19 Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar eða föðursystur, því að sá maður hefir bert gjört náið skyldmenni sitt, þau hafa bakað sér sekt.
20 Og ef einhver leggst með sifkonu sinni, þá hefir hann berað blygðan föðurbróður síns. Þau hafa bakað sér synd, barnlaus skulu þau deyja.
21 Og ef einhver tekur konu bróður síns, þá er það saurgun. Blygðan bróður síns hefir hann berað, barnlaus skulu þau vera.
22 Varðveitið því allar setningar mínar og öll lög mín og haldið þau, svo að landið, sem ég mun leiða yður inn í, til þess að þér byggið það, spúi yður ekki.
23 Þér skuluð ekki breyta eftir setningum þeirrar þjóðar, sem ég rek burt undan yður, því að þeir frömdu allt þetta og þess vegna bauð mér við þeim.
24 Fyrir því sagði ég yður: ,Þér skuluð eignast land þeirra, og ég vil gefa yður það til eignar, land sem flýtur í mjólk og hunangi.' Ég er Drottinn, Guð yðar, sem hefi skilið yður frá þjóðunum.
25 Gjörið því grein hreinna ferfætlinga og óhreinna, og óhreinna fugla og hreinna, og gjörið yður eigi viðurstyggilega á skepnum, fuglum né neinu, sem hrærist á jörðinni, því sem ég hefi greint frá, til þess að það væri yður óhreint.
26 Og þér skuluð vera heilagir fyrir mér, því að ég, Drottinn, er heilagur, og hefi skilið yður frá þjóðunum, til þess að þér skuluð vera mínir.
27 Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim."