Þriðja Mósebók
Kafla 10
Nadab og Abíhú, synir Arons, tóku hvor sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu reykelsi ofan á og báru fram fyrir Drottin óvígðan eld, sem hann eigi hafði boðið þeim.
2 Gekk þá eldur út frá Drottni og eyddi þeim, og þeir dóu frammi fyrir Drottni.
3 Þá sagði Móse við Aron: "Nú er það fram komið, sem Drottinn sagði: Heilagleik minn vil ég sýna á þeim, sem nálægjast mig, og birta dýrð mína frammi fyrir öllum lýð." Og Aron þagði.
4 Móse kallaði á Mísael og Elsafan, sonu Ússíels, föðurbróður Arons, og sagði við þá: "Komið og berið burt úr helgidóminum frændur ykkar út fyrir herbúðirnar."
5 Og þeir komu og báru þá í kyrtlum þeirra út fyrir herbúðirnar, eins og Móse hafði sagt.
6 Og Móse sagði við Aron og við Eleasar og Ítamar, sonu hans: "Þér skuluð eigi láta hár yðar flaka, eigi heldur sundur rífa klæði yðar, að þér ekki deyið og hann reiðist ekki öllum söfnuðinum. En bræður yðar, allur Ísraelslýður, gráti yfir þeim eldi, sem Drottinn hefir kveikt.
7 Og eigi skuluð þér fara út fyrir dyr samfundatjaldsins, ella munuð þér deyja, því að smurningarolía Drottins er á yður." Og þeir gjörðu sem Móse bauð.
8 Drottinn talaði við Aron og sagði:
9 "Hvorki skalt þú né synir þínir drekka vín eða áfengan drykk, þegar þér gangið inn í samfundatjaldið, svo að þér deyið ekki. Það er ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns.
10 Og þér skuluð gjöra greinarmun á því, sem er heilagt og óheilagt, og á því, sem er hreint og óhreint.
11 Og þér skuluð kenna Ísraelsmönnum öll þau lög, er Drottinn hefir gefið þeim fyrir Móse."
12 Móse sagði við Aron og þá Eleasar og Ítamar, sonu hans, er eftir voru á lífi: "Takið matfórnina, sem eftir er af eldfórnum Drottins, og etið hana ósýrða hjá altarinu, því að hún er háheilög.
13 Og þér skuluð eta hana á helgum stað, því að hún er hinn ákveðni hluti þinn og sona þinna af eldfórnum Drottins. Því að svo er mér boðið.
14 En bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, skuluð þér eta á hreinum stað, þú og synir þínir og dætur þínar með þér, því að þetta er sá ákveðni hluti, sem þér er gefinn og sonum þínum af heillafórnum Ísraelsmanna.
15 Lærið, sem fórna skal, og bringuna, sem veifa skal, skulu þeir fram bera ásamt mörstykkja-eldfórnunum til þess að veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni. Síðan skalt þú fá það og synir þínir með þér, sem ævinlega skyldugreiðslu, eins og Drottinn hefir boðið."
16 Og Móse leitaði vandlega að syndafórnarhafrinum, og sjá, hann var upp brenndur. Þá reiddist hann Eleasar og Ítamar, sonum Arons, er eftir voru á lífi, og sagði við þá:
17 "Hvers vegna átuð þið ekki syndafórnina á helgum stað? Því að hún er háheilög og hann hefir gefið ykkur hana til þess að burt taka misgjörð safnaðarins og friðþægja fyrir þá frammi fyrir Drottni.
18 Sjá, blóð hennar hefir ekki verið borið inn í helgidóminn. Þið áttuð þó að eta hana á helgum stað, eins og ég hafði boðið."
19 En Aron sagði við Móse: "Sjá, í dag hafa þeir fram borið syndafórn sína og brennifórn fyrir Drottin, og mér hefir slíkt að höndum borið. Hefði ég nú etið syndafórnina í dag, mundi Drottni hafa þóknast það?"
20 Og er Móse heyrði þetta, lét hann sér það vel líka.