Þriðja Mósebók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27


Kafla 2

Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það.
2 Og hann skal færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
3 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.
4 Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð.
5 En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu mjöli olíublandað.
6 Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það matfórn.
7 En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu mjöli með olíu.
8 Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd. Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu.
9 En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.
10 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.
11 Engin matfórn, sem þér færið Drottni, skal gjörð af sýrðu deigi, því að ekkert súrdeig eða hunang megið þér brenna sem eldfórn Drottni til handa.
12 Í frumgróðafórn megið þér færa það Drottni, en upp að altarinu má eigi bera það til þægilegs ilms.
13 Allar matfórnir þínar skalt þú salti salta, og þú skalt eigi láta vanta í matfórnir þínar salt þess sáttmála, er Guð þinn hefir við þig gjört. Með öllum fórnum þínum skalt þú salt fram bera.
14 Færir þú Drottni frumgróðamatfórn, þá skalt þú fram bera í matfórn af frumgróða þínum öx, bökuð við eld, mulin korn úr nýslegnum kornstöngum.
15 Og þú skalt hella olíu yfir hana og leggja reykelsiskvoðu ofan á; þá er það matfórn.
16 Og presturinn skal brenna ilmhluta hennar, nokkuð af hinu mulda korni og olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, til eldfórnar fyrir Drottin.