Önnur Mósebók
Kafla 32
Er fólkið sá, að seinkaði komu Móse ofan af fjallinu, þyrptist fólkið í kringum Aron og sagði við hann: "Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari, því að vér vitum ekki, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi."
2 Og Aron sagði við þá: "Slítið eyrnagullin úr eyrum kvenna yðar, sona og dætra, og færið mér."
3 Þá sleit allt fólkið eyrnagullin úr eyrum sér og færði Aroni,
4 en hann tók við því af þeim, lagaði það með meitlinum og gjörði af því steyptan kálf. Þá sögðu þeir: "Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi."
5 Og er Aron sá það, reisti hann altari fyrir framan hann, og Aron lét kalla og segja: "Á morgun skal vera hátíð Drottins."
6 Næsta morgun risu þeir árla, fórnuðu brennifórnum og færðu þakkarfórnir. Síðan settist fólkið niður til að eta og drekka, og því næst stóðu þeir upp til leika.
7 Þá sagði Drottinn við Móse: "Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört.
8 Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: ,Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.'"
9 Drottinn sagði við Móse: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk.
10 Lát mig nú einan, svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim. Síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð."
11 En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: "Hví skal, Drottinn, reiði þín upptendrast í gegn fólki þínu, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi?
12 Hví skulu Egyptar segja og kveða svo að orði: ,Til ills leiddi hann þá út, til að deyða þá á fjöllum uppi og afmá þá af jörðinni'? Snú þér frá þinni brennandi reiði og lát þig iðra hins illa gegn fólki þínu.
13 Minnst þú þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels, sem þú hefir svarið við sjálfan þig og heitið: ,Ég vil gjöra niðja yðar marga sem stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem ég hefi talað um, vil ég gefa niðjum yðar, og skulu þeir eiga það ævinlega.'"
14 Þá iðraðist Drottinn hins illa, er hann hafði hótað að gjöra fólki sínu.
15 Síðan sneri Móse á leið og gekk ofan af fjallinu með báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér. Voru þær skrifaðar báðumegin, svo á einni hliðinni sem á annarri voru þær skrifaðar.
16 En töflurnar voru Guðs verk og letrið Guðs letur, rist á töflurnar.
17 En er Jósúa heyrði ópið í fólkinu, sagði hann við Móse: "Það er heróp í búðunum!"
18 En Móse svaraði: "Það er ekki óp sigrandi manna og ekki óp þeirra, er sigraðir verða; söngóm heyri ég."
19 En er Móse nálgaðist herbúðirnar og sá kálfinn og dansinn, upptendraðist reiði hans, svo að hann þeytti töflunum af hendi og braut þær í sundur fyrir neðan fjallið.
20 Síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gjört, brenndi hann í eldi og muldi hann í duft og dreifði því á vatnið og lét Ísraelsmenn drekka.
21 Þá sagði Móse við Aron: "Hvað hefir þetta fólk gjört þér, að þú skulir hafa leitt svo stóra synd yfir það?"
22 Aron svaraði: "Reiðst eigi, herra. Þú þekkir lýðinn, að hann er jafnan búinn til ills.
23 Þeir sögðu við mig: ,Gjör oss guð, er fyrir oss fari, því vér vitum eigi, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi.'
24 Þá sagði ég við þá: ,Hver sem gull hefir á sér, hann slíti það af sér.' Fengu þeir mér það, og kastaði ég því í eldinn, svo varð af því þessi kálfur."
25 Er Móse sá, að fólkið var orðið taumlaust, því að Aron hafði sleppt við það taumnum, svo að þeir voru hafðir að spotti af mótstöðumönnum sínum,
26 þá nam Móse staðar í herbúðahliðinu og mælti: "Hver sem heyrir Drottni til, komi hingað til mín!" Þá söfnuðust allir levítar til hans.
27 Og hann sagði við þá: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Hver einn festi sverð á hlið sér, fari síðan fram og aftur frá einu hliði herbúðanna til annars og drepi hver sinn bróður, vin og frænda.'"
28 Og levítarnir gjörðu sem Móse bauð þeim, og féllu af fólkinu á þeim degi þrjár þúsundir manna.
29 Og Móse sagði: "Fyllið hendur yðar í dag, Drottni til handa, því að hver maður var á móti syni sínum og bróður, svo að yður veitist blessun í dag."
30 Morguninn eftir sagði Móse við lýðinn: "Þér hafið drýgt stóra synd. En nú vil ég fara upp til Drottins; má vera, að ég fái friðþægt fyrir synd yðar."
31 Síðan sneri Móse aftur til Drottins og mælti: "Æ, þetta fólk hefir drýgt stóra synd og gjört sér guð af gulli.
32 Ég bið, fyrirgef þeim nú synd þeirra! Ef ekki, þá bið ég, að þú máir mig af bók þinni, sem þú hefir skrifað."
33 En Drottinn sagði við Móse: "Hvern þann, er syndgað hefir móti mér, vil ég má af bók minni.
34 Far nú og leið fólkið þangað, sem ég hefi sagt þér, sjá, engill minn skal fara fyrir þér. En þegar minn vitjunartími kemur, skal ég vitja synda þeirra á þeim."
35 En Drottinn laust fólkið fyrir það, að þeir höfðu gjört kálfinn, sem Aron gjörði.