Önnur Mósebók
Kafla 18
Er Jetró prestur í Midíanslandi, tengdafaðir Móse, heyrði allt það, sem Guð hafði gjört Móse og lýð sínum Ísrael, að Drottinn hafði leitt Ísrael út af Egyptalandi,
2 þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, Sippóru konu Móse, en hann hafði sent hana aftur,
3 og tvo sonu hennar. Hét annar Gersóm, því að hann hafði sagt: "Gestur er ég í ókunnu landi."
4 Hinn hét Elíeser, því að hann hafði sagt: "Guð föður míns var mín hjálp, og hann frelsaði mig frá sverði Faraós."
5 En er Jetró, tengdafaðir Móse, kom með sonu hans og konu til hans í eyðimörkina, þar sem hann hafði sett búðir sínar hjá Guðs fjalli,
6 þá lét hann segja Móse: "Ég, Jetró, tengdafaðir þinn, er kominn til þín, og kona þín og báðir synir hennar með henni."
7 Gekk þá Móse út á móti tengdaföður sínum, laut honum og kyssti hann. Og þegar þeir höfðu heilsast, gengu þeir inn í tjaldið.
8 Og Móse sagði tengdaföður sínum frá öllu því, sem Drottinn hafði gjört Faraó og Egyptum fyrir sakir Ísraels, frá öllum þeim þrautum, sem þeim höfðu mætt á leiðinni, og hversu Drottinn hafði frelsað þá.
9 Og Jetró gladdist af öllum þeim velgjörðum, sem Drottinn hafði auðsýnt Ísrael, þar sem hann hafði frelsað hann undan valdi Egypta.
10 Og Jetró sagði: "Lofaður sé Drottinn fyrir það, að hann frelsaði yður undan valdi Egypta og undan valdi Faraós, fyrir það, að hann frelsaði fólkið undan valdi Egypta.
11 Nú veit ég, að Drottinn er öllum guðum meiri, því að hann lét Egyptum hefnast fyrir ofdramb þeirra gegn Ísraelsmönnum."
12 Þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, brennifórn og sláturfórnir Guði til handa. Kom þá Aron og allir öldungar Ísraels, til þess að matast með tengdaföður Móse frammi fyrir Guði.
13 Daginn eftir settist Móse til að mæla lýðnum lögskil, og stóð fólkið frammi fyrir Móse frá morgni til kvelds.
14 En er tengdafaðir Móse sá allt það, sem hann gjörði við fólkið, þá sagði hann: "Hvað er þetta, sem þú gjörir við fólkið? Hvers vegna situr þú einn saman, en allt fólkið stendur frammi fyrir þér frá morgni til kvelds?"
15 Móse svaraði tengdaföður sínum: "Fólkið kemur til mín til þess að leita Guðs atkvæða.
16 Þegar mál gjörist þeirra á milli, koma þeir á fund minn, og ég dæmi milli manna og kunngjöri lög Guðs og boðorð hans."
17 Þá sagði tengdafaðir Móse við hann: "Eigi er það gott, sem þú gjörir.
18 Bæði þreytist þú og eins fólkið, sem hjá þér er, því að þetta starf er þér um megn, þú fær því ekki afkastað einn saman.
19 Hlýð nú orðum mínum. Ég vil leggja þér ráð, og mun Guð vera með þér. Þú skalt ganga fram fyrir Guð í nafni fólksins og fram bera málin fyrir Guð.
20 Og þú skalt kenna þeim lögin og boðorðin, og sýna þeim þann veg, sem þeir skulu ganga, og þau verk, sem þeir skulu gjöra.
21 Og þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna, og skipa þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu og suma yfir tíu.
22 Og þeir skulu mæla lýðnum lögskil á öllum tímum. Öll hin stærri mál skulu þeir láta koma fyrir þig, en sjálfir skulu þeir dæma í öllum smærri málum. Skaltu þannig gjöra þér hægra fyrir, og þeir skulu létta undir með þér.
23 Ef þú gjörir þetta, og Guð býður þér það, þá muntu fá risið undir því, og þá mun og allt þetta fólk fara ánægt til heimila sinna."
24 Móse hlýddi orðum tengdaföður síns og gjörði allt, sem hann hafði sagt.
25 Og Móse valdi dugandi menn af öllum Ísraels lýð og skipaði þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu.
26 Og mæltu þeir lýðnum lögskil á öllum tímum. Vandamálunum skutu þeir til Móse, en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum.
27 Lét Móse síðan tengdaföður sinn frá sér fara, og hélt hann aftur heim í sitt land.