Önnur Mósebók
Kafla 22
Ef maður stelur nauti eða sauð, og slátrar eða selur, þá gjaldi hann aftur fimm uxa fyrir einn uxa og fjóra sauði fyrir einn sauð.
2 Ef þjófur er staðinn að innbroti og lostinn til bana, þá er vegandinn eigi blóðsekur.
3 En ef sól er á loft komin, þá er hann blóðsekur. Þjófurinn skal greiða fullar bætur, en eigi hann ekkert til, skal selja hann í bætur fyrir stuldinn.
4 Ef hið stolna finnst lifandi hjá honum, hvort heldur það er uxi, asni eða sauður, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur.
5 Ef maður beitir akur eða víngarð og lætur fénað sinn ganga lausan og hann gengur í akri annars manns, þá skal hann bæta með því, sem best er á akri hans eða í víngarði hans.
6 Ef eldur kviknar og kemst í þyrna og brennur kerfaskrúf, kornstangir eða akur, þá bæti sá fullum bótum, er eldinn kveikti.
7 Nú selur maður öðrum manni silfur eða nokkra gripi til varðveislu og því er stolið úr húsi hans, og finnist þjófurinn, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur.
8 En finnist þjófurinn ekki, þá skal leiða húseigandann fram fyrir Guð, og synji hann fyrir með eiði að hann hafi lagt hendur á eign náunga síns.
9 Fari einhver óráðvandlega með uxa, asna, sauð, klæðnað eða hvað annað, er tapast hefir og einhver segir um: "Það er þetta," þá skal mál þeirra beggja koma fyrir Guð, og sá sem Guð dæmir sekan skal gjalda náunga sínum tvöfalt.
10 Ef maður selur öðrum manni asna eða naut eða sauð eða nokkra aðra skepnu til varðveislu, og hún deyr eða lestist eða er tekin svo að enginn sér,
11 þá skal til koma eiður við Drottinn þeirra í millum, að hann lagði ekki hönd á eign náunga síns, og skal eigandi þann eið gildan taka, en hinn bæti engu.
12 En hafi því verið stolið frá honum, þá gjaldi hann bætur eigandanum.
13 Ef það er dýrrifið, þá skal hann koma með það til sannindamerkis. Það sem dýrrifið er skal hann ekki bæta.
14 Ef maður hefir fengið einhvern grip léðan hjá öðrum manni og hann lestist eða deyr, sé eigandi ekki viðstaddur, þá bæti hinn fullum bótum,
15 en sé eigandi við, bæti hann engu. Ef það var leigugripur, þá eru bæturnar fólgnar í leigunni.
16 Ef maður glepur mey, sem ekki er föstnuð manni, og leggst með henni, þá skal hann hana mundi kaupa sér að eiginkonu.
17 En ef faðir hennar vill eigi gifta honum hana, þá skal hann greiða svo mikið silfur sem meyjarmundi svarar.
18 Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda.
19 Hver sem hefir samlag við fénað skal líflátinn verða.
20 Hver sem færir fórnir nokkrum guði, öðrum en Drottni einum, skal bannfærður verða.
21 Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.
22 Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja.
23 Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra.
24 Þá skal reiði mín upptendrast, og ég skal drepa yður með sverði, svo að konur yðar verði ekkjur og börn yðar föðurlaus.
25 Ef þú lánar peninga fólki mínu, hinum fátæka, sem hjá þér er, þá skalt þú ekki vera við hann eins og okrari. Þér skuluð ekki taka leigu af honum.
26 Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði, þá skila þú honum henni aftur áður sól sest,
27 því að hún er hið eina, sem hann hefir til að hylja sig með, hún skýlir líkama hans. Hvað á hann annars að hafa yfir sér, er hann leggst til hvíldar? Þegar hann hrópar til mín, skal ég heyra, því að ég er miskunnsamur.
28 Þú skalt ekki lastmæla Guði og ekki bölva höfðingja þíns fólks.
29 Lát eigi undan dragast að færa fórn af korngnótt þinni og aldinsafa. Frumgetning sona þinna skalt þú mér gefa.
30 Hið sama skalt þú gjöra af nautum þínum og sauðum. Sjö daga skal frumburðurinn vera hjá móður sinni, en hinn áttunda dag skalt þú færa mér hann.
31 Helgir menn skuluð þér vera fyrir mér. Það kjöt, sem rifið er af dýrum úti á víðavangi, skuluð þér eigi eta, heldur kasta því fyrir hunda.