Galatabréfið

1 2 3 4 5 6


Kafla 3

Þér óskynsömu Galatar! Hver hefur töfrað yður? Þér hafið þó fengið skýra mynd af Jesú Kristi á krossinum, málaða fyrir augum yðar.
2 Um þetta eitt vil ég fræðast af yður: Öðluðust þér andann fyrir lögmálsverk eða við að hlýða á fagnaðarerindið og trúa?
3 Eruð þér svo óskynsamir? Þér sem byrjuðuð í anda, ætlið þér nú að enda í holdi?
4 Hafið þér til einskis reynt svo mikið? - ef það þá er til einskis!
5 Hvað um það, - sá sem veitir yður andann og framkvæmir máttarverk meðal yðar, gjörir hann það vegna lögmálsverka yðar eða vegna þess að þér heyrið og trúið?
6 Svo var og um Abraham, "hann trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað."
7 Þér sjáið þá, að þeir sem byggja á trúnni, þeir eru einmitt synir Abrahams.
8 Ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú, og því boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: "Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta."
9 Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.
10 En bölvun hvílir á öllum þeim, sem byggja á lögmálsverkum, því að ritað er: "Bölvaður er sá, sem ekki heldur fast við allt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, og breytir eftir því."
11 En það er augljóst að fyrir Guði réttlætist enginn með lögmáli, því að "hinn réttláti mun lifa fyrir trú."
12 En lögmálið spyr ekki um trú. Það segir: "Sá, sem breytir eftir boðum þess, mun lifa fyrir þau."
13 Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss, því að ritað er: "Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir."
14 Þannig skyldi heiðingjunum hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, og vér öðlast fyrir trúna andann, sem fyrirheitið var.
15 Bræður, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ónýtir eða eykur við staðfesta arfleiðsluskrá, enda þótt hún sé aðeins af manni gjörð.
16 Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, - þar stendur ekki "og afkvæmum", eins og margir ættu í hlut, heldur "og afkvæmi þínu", eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.
17 Með þessu vildi ég sagt hafa: Sáttmála, sem áður var staðfestur af Guði, getur lögmálið, sem kom fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, ekki ónýtt, svo að það felli fyrirheitið úr gildi.
18 Sé því þá svo farið, að arfurinn fáist með lögmáli, þá fæst hann ekki framar með fyrirheiti, en Guð veitti Abraham náð sína með fyrirheiti.
19 Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrir tilstilli meðalgangara.
20 En meðalgangara gjörist ekki þörf þar sem einn á í hlut, en Guð er einn.
21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Ef vér hefðum fengið lögmál, sem veitt gæti líf, þá fengist réttlætið vissulega með lögmáli.
22 En ritningin segir, að allt sé hneppt undir vald syndarinnar, til þess að fyrirheitið veitist þeim, sem trúa, fyrir trú á Jesú Krist.
23 Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist.
24 Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.
25 En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara.
26 Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú.
27 Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi.
28 Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.
29 En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.