Galatabréfið
Kafla 1
Páll postuli - ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum -
2 og allir bræðurnir, sem með mér eru, heilsa söfnuðunum í Galatalandi.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi,
4 sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður.
5 Honum sé dýrð um aldir alda, amen.
6 Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis,
7 sem þó er ekki til; heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist.
8 En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.
9 Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður.
10 Er ég nú að reyna að sannfæra menn eða Guð? Er ég að leitast við að þóknast mönnum? Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists.
11 Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk.
12 Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists.
13 Þér hafið heyrt um háttsemi mína áður fyrri í Gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum.
14 Ég fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingasamari um erfikenningu forfeðra minna.
15 En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað,
16 þóknaðist að opinbera mér son sinn, til þess að ég boðaði fagnaðarerindið um hann meðal heiðingjanna, þá ráðgaðist ég eigi við neinn mann,
17 ekki fór ég heldur upp til Jerúsalem til þeirra, sem voru postular á undan mér, heldur fór ég jafnskjótt til Arabíu og sneri svo aftur til Damaskus.
18 Síðan fór ég eftir þrjú ár upp til Jerúsalem til að kynnast Kefasi og dvaldist hjá honum hálfan mánuð.
19 Engan af hinum postulunum sá ég, heldur aðeins Jakob, bróður Drottins.
20 Guð veit, að ég lýg því ekki, sem ég skrifa yður.
21 Síðan kom ég í héruð Sýrlands og Kilikíu.
22 Ég var persónulega ókunnur kristnu söfnuðunum í Júdeu.
23 Þeir höfðu einungis heyrt sagt: "Sá sem áður ofsótti oss, boðar nú trúna, sem hann áður vildi eyða."
24 Og þeir vegsömuðu Guð vegna mín.