Síðara Korintubréf
Kafla 2
En það ásetti ég mér, að koma ekki aftur til yðar með hryggð.
2 Ef ég hryggi yður, hver er þá sá sem gleður mig? Sá sem ég er að hryggja?
3 Ég skrifaði einmitt þetta til þess að þeir, sem áttu að gleðja mig, skyldu ekki hryggja mig, er ég kæmi. Ég hef það traust til yðar allra, að gleði mín sé gleði yðar allra.
4 Af mikilli þrengingu og hjartans trega skrifaði ég yður með mörgum tárum, ekki til þess að þér skylduð hryggjast, heldur til þess að þér skylduð komast að raun um þann kærleika, sem ég ber til yðar í svo ríkum mæli.
5 En ef nokkur hefur orðið til þess að valda hryggð, þá hefur hann ekki hryggt mig, heldur að vissu leyti - að ég gjöri ekki enn meira úr því - hryggt yður alla.
6 Nægileg er þeim manni refsing sú, sem hann hefur hlotið af yður allflestum.
7 Því ættuð þér nú öllu heldur að fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð.
8 Þess vegna bið ég yður að sýna honum kærleika í reynd.
9 Því að í þeim tilgangi skrifaði ég yður, til þess að komast að raun um staðfestu yðar, hvort þér væruð hlýðnir í öllu.
10 En hverjum sem þér fyrirgefið, honum fyrirgef ég líka. Og það sem ég hef fyrirgefið, hafi ég þurft að fyrirgefa nokkuð, þá hefur það verið vegna yðar fyrir augliti Krists,
11 til þess að vér yrðum ekki vélaðir af Satan, því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.
12 En er ég kom til Tróas til að boða fagnaðarerindið um Krist og mér stóðu þar opnar dyr í þjónustu Drottins,
13 þá hafði ég enga eirð í mér, af því að ég hitti ekki Títus, bróður minn, svo að ég kvaddi þá og fór til Makedóníu.
14 En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.
15 Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast;
16 þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þessa hæfur?
17 Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.