Síðara Korintubréf

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13


Kafla 1

Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,
4 sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.
5 Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist.
6 En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum.
7 Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.
8 Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið.
9 Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.
10 Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss.
11 Til þess getið þér og hjálpað með því að biðja fyrir oss. Þá munu margir þakka þá náðargjöf, sem oss er veitt að fyrirbæn margra.
12 Þetta er hrósun vor: Samviska vor vitnar um, að vér höfum lifað í heiminum, og sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika, sem kemur frá Guði, ekki látið stjórnast af mannlegri speki, heldur af náð Guðs.
13 Vér skrifum yður ekki annað en það, sem þér getið lesið og skilið. Ég vona, að þér munið til fulls skilja það,
14 sem yður er að nokkru ljóst, að þér getið miklast af oss eins og vér af yður á degi Drottins vors Jesú.
15 Í þessu trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til yðar, til þess að þér skylduð verða tvöfaldrar gleði aðnjótandi.
16 Ég hugðist bæði koma við hjá yður á leiðinni til Makedóníu og aftur á leiðinni þaðan og láta yður búa ferð mína til Júdeu.
17 Var það nú svo mikið hverflyndi af mér, er ég afréð þetta? Eða ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins, svo að hjá mér sé "já, já" sama og "nei, nei"?
18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það, sem vér segjum yður, er ekki bæði já og nei.
19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem vér höfum prédikað á meðal yðar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði "já" og "nei", heldur er allt í honum "já".
20 Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum. Þess vegna segjum vér og fyrir hann amen Guði til dýrðar.
21 Það er Guð, sem gjörir oss ásamt yður staðfasta í Kristi og hefur smurt oss.
22 Hann hefur sett innsigli sitt á oss og gefið oss anda sinn sem pant í hjörtum vorum.
23 Ég kalla Guð til vitnis og legg líf mitt við, að það er af hlífð við yður, að ég hef enn þá ekki komið til Korintu.
24 Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.