Fyrra Korintubréf
Kafla 7
En svo að ég minnist á það, sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu.
2 En vegna saurlifnaðarins hafi hver og einn sína eiginkonu og hver og ein hafi sinn eiginmann.
3 Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum.
4 Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama, heldur maðurinn. Sömuleiðis hefur og maðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama, heldur konan.
5 Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar.
6 Þetta segi ég í tilhliðrunarskyni, ekki sem skipun.
7 En þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina.
8 Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég.
9 En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.
10 Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, -
11 en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn -, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna.
12 En við hina segi ég, ekki Drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana.
13 Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn.
14 Því að vantrúaði maðurinn er helgaður í konunni og vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög.
15 En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði.
16 Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?
17 Þó skal hver og einn vera í þeirri stöðu, sem Drottinn hefur úthlutað honum, eins og hann var, þegar Guð kallaði hann. Þannig skipa ég fyrir í öllum söfnuðunum.
18 Sá sem var umskorinn, þegar hann var kallaður, breyti því ekki. Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig.
19 Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs.
20 Hver og einn sé kyrr í þeirri stöðu, sem hann var kallaður í.
21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig, en gjör þér gott úr því, en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur.
22 Því að sá þræll, sem kallaður er í Drottni, er frelsingi Drottins. Á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists.
23 Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.
24 Bræður, sérhver verði frammi fyrir Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í.
25 Um meyjarnar hef ég enga skipun frá Drottni. En álit mitt læt ég í ljós eins og sá, er hlotið hefur þá náð af Drottni að vera trúr.
26 Mín skoðun er, að vegna yfirstandandi neyðar sé það gott fyrir mann að vera þannig.
27 Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ertu laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs.
28 En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki, og ef mærin giftist, syndgar hún ekki. En þrenging munu slíkir hljóta hér á jörð, en ég vildi hlífa yður.
29 En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki,
30 þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa,
31 og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.
32 En ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast.
33 En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni,
34 og er tvískiptur. Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkama og anda. En hin gifta kona ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hún megi þóknast manninum.
35 Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.
36 Ef einhver telur sig ekki geta vansalaust búið með heitmey sinni, enda á manndómsskeiði, þá gjöri hann sem hann vill, ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Giftist þau.
37 Sá þar á móti, sem er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur fullt vald á vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að hún verði áfram mey, gjörir vel.
38 Þannig gjöra þá báðir vel, sá sem kvænist mey sinni, og hinn, sem kvænist henni ekki, hann gjörir betur.
39 Konan er bundin, meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni.
40 Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.