Fyrra Korintubréf
Kafla 6
Getur nokkur yðar, sem hefur sök móti öðrum, fengið af sér að leggja málið undir dóm heiðinna manna, en ekki hinna heilögu?
2 Eða vitið þér ekki, að hinir heilögu eiga að dæma heiminn? Og ef þér eigið að dæma heiminn, eruð þér þá óverðugir að dæma í hinum minnstu málum?
3 Vitið þér eigi, að vér eigum að dæma engla? Hvað þá heldur tímanleg efni!
4 Þegar þér eigið að dæma um tímanleg efni, þá kveðjið þér að dómurum menn, sem að engu eru hafðir í söfnuðinum.
5 Ég segi það yður til blygðunar. Er þá enginn vitur til á meðal yðar, sem skorið geti úr málum milli bræðra?
6 Í stað þess á bróðir í máli við bróður og það fyrir vantrúuðum!
7 Annars er það nú yfirleitt galli á yður, að þér eigið í málaferlum hver við annan. Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður?
8 Í stað þess hafið þér rangsleitni í frammi og hafið af öðrum og það af bræðrum!
9 Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar,
10 þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.
11 Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.
12 Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt, en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér.
13 Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn, en Guð mun hvort tveggja að engu gjöra. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi, heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann.
14 Guð hefur uppvakið Drottin og mun uppvekja oss fyrir kraft sinn.
15 Vitið þér ekki, að líkamir yðar eru limir Krists? Á ég þá að taka limi Krists og gjöra þá að skækjulimum? Fjarri fer því.
16 Vitið þér ekki, að sá er samlagar sig skækjunni verður ásamt henni einn líkami? Því að sagt er: "Þau tvö munu verða eitt hold."
17 En sá er samlagar sig Drottni er einn andi ásamt honum.
18 Flýið saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.
19 Vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda, sem í yður er og þér hafið frá Guði? Og ekki eruð þér yðar eigin.
20 Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.