Rómverjabréfið

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16


Kafla 16

Ég fel yður á hendur Föbe, systur vora, sem er þjónn safnaðarins í Kenkreu.
2 Veitið henni viðtöku í Drottni eins og heilögum hæfir og liðsinnið henni í hverju því, sem hún þarf yðar við, því að hún hefur verið bjargvættur margra og mín sjálfs.
3 Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú.
4 Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.
5 Heilsið einnig söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða, sem er frumgróði Asíu Kristi til handa.
6 Heilsið Maríu, sem mikið hefur erfiðað fyrir yður.
7 Heilsið Andróníkusi og Júníasi, ættmönnum mínum og sambandingjum. Þeir skara fram úr meðal postulanna og hafa á undan mér gengið Kristi á hönd.
8 Heilsið Amplíatusi, mínum elskaða í Drottni.
9 Heilsið Úrbanusi, samverkamanni vorum í Kristi, og Stakkýsi, mínum elskaða.
10 Heilsið Apellesi, sem hefur reynst hæfur í þjónustu Krists. Heilsið heimilismönnum Aristóbúls.
11 Heilsið Heródíon, ættingja mínum. Heilsið þeim á heimili Narkissusar, sem tilheyra Drottni.
12 Heilsið Trýfænu og Trýfósu, sem hafa lagt hart á sig fyrir Drottin. Heilsið Persis, hinni elskuðu, sem mikið hefur starfað fyrir Drottin.
13 Heilsið Rúfusi, hinum útvalda í Drottni, og móður hans, sem er mér einnig móðir.
14 Heilsið Asýnkritusi, Flegon, Hermes, Patróbasi, Hermasi og bræðrunum, sem hjá þeim eru.
15 Heilsið Fílólógusi og Júlíu, Nerevs og systur hans og Ólympasi og öllum heilögum, sem með þeim eru.
16 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir söfnuðir Krists senda yður kveðju.
17 Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.
18 Því að slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi, heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna.
19 Hlýðni yðar er alkunn orðin. Því gleðst ég yfir yður og ég vil, að þér séuð vitrir í því, sem gott er, en einfaldir í því, sem illt er.
20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar. Náðin Drottins vors Jesú Krist sé með yður.
21 Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus, Jason og Sósípater, ættmenn mínir, biðja að heilsa yður.
22 Ég, Tertíus, sem hef ritað bréfið, bið að heilsa yður í Drottni.
23 Gajus, sem ljær mér og öllum söfnuðinum hús, biður að heilsa yður; Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus biðja að heilsa yður.
24 (OMITTED TEXT)
25 Honum, sem megnar að styrkja yður með fagnaðarerindinu, sem ég boða, og í prédikuninni um Jesú Krist samkvæmt opinberun þess leyndardóms, sem frá eilífum tíðum hefur verið dulinn,
26 en nú er opinberaður og fyrir spámannlegar ritningar, eftir skipun hins eilífa Guðs, kunngjörður öllum þjóðum til að vekja hlýðni við trúna,
27 honum einum, alvitrum Guði, sé fyrir Jesú Krist dýrð um aldir alda. Amen.