Rómverjabréfið

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16


Kafla 14

Takið að yður hina óstyrku í trúnni, án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra.
2 Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta en hinn óstyrki neytir einungis jurtafæðu.
3 Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér.
4 Hver ert þú, sem dæmir annars þjón? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.
5 Einn gjörir mun á dögum, en annar metur alla daga jafna. Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum.
6 Sá, sem tekur tillit til daga, gjörir það vegna Drottins. Og sá, sem neytir kjöts, gerir það vegna Drottins, því að hann gjörir Guði þakkir. Sá, sem lætur óneytt, hann lætur óneytt vegna Drottins og gjörir Guði þakkir.
7 Því að enginn af oss lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér.
8 Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins.
9 Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi, að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi.
10 En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.
11 Því að ritað er: "Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skulu öll kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð."
12 Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.
13 Dæmum því ekki framar hver annan. Ásetjið yður öllu heldur að verða bróður yðar ekki til ásteytingar eða falls.
14 Ég veit það og er þess fullviss, af því að ég lifi í samfélagi við Drottin Jesú, að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér, nema þá þeim, sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt.
15 Ef bróðir þinn hryggist sökum þess, sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni, sem Kristur dó fyrir.
16 Látið því ekki hið góða, sem þér eigið, verða fyrir lasti.
17 Því að ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda.
18 Hver sem þjónar Kristi á þann hátt, hann er Guði velþóknanlegur og vel metinn manna á meðal.
19 Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.
20 Brjóttu ekki niður verk Guðs vegna matar! Allt er að sönnu hreint, en það er þó illt þeim manni, sem etur öðrum til ásteytingar.
21 Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á.
22 Halt þú þeirri trú, sem þú hefur með sjálfum þér fyrir Guði. Sæll er sá, sem þarf ekki að áfella sig fyrir það, sem hann velur.
23 En sá sem er efablandinn og etur þó, hann er dæmdur af því að hann etur ekki af trú. Allt sem ekki er af trú er synd.