Haggaí

1 2


Kafla 1

Á öðru ríkisári Daríusar konungs, hinn fyrsta dag hins sjötta mánaðar, kom orð Drottins fyrir munn Haggaí spámanns til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðsta prests, svo hljóðandi:
2 Svo segir Drottinn allsherjar: Þessi lýður segir: "Enn er ekki tími kominn til að endurreisa hús Drottins."
3 Þá kom orð Drottins fyrir munn Haggaí spámanns, svo hljóðandi:
4 Er þá tími fyrir yður að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús liggur í rústum?
5 Og nú segir Drottinn allsherjar svo: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer!
6 Þér sáið miklu, en safnið litlu, etið, en verðið eigi saddir, drekkið, en fáið eigi nægju yðar, klæðið yður, en verðið þó ekki varmir, og sá sem vinnur fyrir kaupi, vinnur fyrir því í götótta pyngju.
7 Svo segir Drottinn allsherjar: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer!
8 Farið upp í fjöllin, sækið við og reisið musterið, þá mun ég hafa velþóknun á því og gjöra mig vegsamlegan! - segir Drottinn.
9 Þér búist við miklu, en fáið lítið í aðra hönd, og þó þér flytjið það heim, þá blæs ég það burt. Hvers vegna? segir Drottinn allsherjar. Vegna húss míns, af því að það liggur í rústum, meðan sérhver yðar flýtir sér með sitt hús.
10 Fyrir því heldur himinninn uppi yfir yður aftur dögginni og fyrir því heldur jörðin aftur gróðri sínum.
11 Ég kallaði þurrk yfir landið og yfir fjöllin, yfir kornið, vínberjalöginn og olíuna og yfir það, sem jörðin af sér gefur, yfir menn og skepnur og yfir allan handafla.
12 Þá hlýddi Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson æðsti prestur og allt það, er eftir var orðið lýðsins, röddu Drottins Guðs þeirra og orðum Haggaí spámanns, þeim er Drottinn Guð þeirra hafði sent hann með, og lýðurinn óttaðist Drottin.
13 Þá sagði Haggaí, sendiboði Drottins, við lýðinn, samkvæmt boðskap Drottins: Ég er með yður! - segir Drottinn.
14 Og Drottinn vakti hug Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og hug Jósúa Jósadakssonar æðsta prests og hug alls þess, er eftir var orðið lýðsins, svo að þeir komu og hófu að byggja hús Drottins allsherjar, Guðs þeirra,
15 á tuttugasta og fjórða degi hins sjötta mánaðar, á öðru ríkisári Daríusar konungs.