Jobsbók
Kafla 32
Og þessir þrír menn hættu að svara Job, því að hann þóttist vera réttlátur.
2 Þá upptendraðist reiði Elíhú Barakelssonar Búsíta af Rams kynstofni. Upptendraðist reiði hans gegn Job, af því að hann taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði.
3 Reiði hans upptendraðist og gegn vinum hans þremur, fyrir það að þeir fundu engin andsvör til þess að sanna Job, að hann hefði á röngu að standa.
4 En Elíhú hafði beðið með að mæla til Jobs, því að hinir voru eldri en hann.
5 En er Elíhú sá, að mennirnir þrír gátu engu svarað, upptendraðist reiði hans.
6 Þá tók Elíhú Barakelsson Búsíti til máls og sagði: Ég er ungur að aldri, en þér eruð öldungar, þess vegna fyrirvarð ég mig og kom mér eigi að því að kunngjöra yður það, sem ég veit.
7 Ég hugsaði: Aldurinn tali, og árafjöldinn kunngjöri speki!
8 En - það er andinn í manninum og andblástur hins Almáttka, sem gjörir þá vitra.
9 Elstu mennirnir eru ekki ávallt vitrastir, og öldungarnir skynja eigi, hvað réttast er.
10 Fyrir því segi ég: Hlýð á mig, nú ætla einnig ég að kunngjöra það, sem ég veit.
11 Sjá, ég beið eftir ræðum yðar, hlustaði á röksemdir yðar, uns þér fynduð orðin, sem við ættu.
12 Og að yður gaf ég gaum, en sjá, enginn sannfærði Job, enginn yðar hrakti orð hans.
13 Segið ekki: "Vér höfum hitt fyrir speki, Guð einn fær sigrað hann, en enginn maður!"
14 Gegn mér hefir hann ekki sett fram neinar sannanir, og með yðar orðum ætla ég ekki að svara honum.
15 Þeir eru skelkaðir, svara eigi framar, þeir standa uppi orðlausir.
16 Og ætti ég að bíða, þar sem þeir þegja, þar sem þeir standa og svara eigi framar?
17 Ég vil og svara af minni hálfu, ég vil og kunngjöra það, sem ég veit.
18 Því að ég er fullur af orðum, andinn í brjósti mínu knýr mig.
19 Sjá, brjóst mitt er sem vín, er ekki fær útrás, ætlar að rifna, eins og nýfylltir belgir.
20 Ég ætla að tala til þess að létta á mér, ætla að opna varir mínar og svara.
21 Ég ætla ekki að draga taum neins, og ég ætla engan að skjalla.
22 Því að ég kann ekki að skjalla, ella kynni skapari minn bráðlega að kippa mér burt.