Esterarbók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10


Kafla 4

En er Mordekai varð alls þessa áskynja, er gjörst hafði, þá reif hann klæði sín, klæddist sekk og ösku, gekk út í miðja borgina og kveinaði hástöfum og beisklega.
2 Síðan gekk hann fast að konungshliðinu, því að enginn mátti inn ganga í konungshliðið klæddur hærusekk.
3 Og í öllum þeim skattlöndum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, varð mikill harmur meðal Gyðinga og fasta, grátur og kveinan. Flestir breiddu undir sig sekk og ösku.
4 Þá komu þjónustumeyjar Esterar og geldingar hennar og sögðu henni frá þessu. Varð drottning þá mjög óttaslegin. Og hún sendi klæði, er Mordekai skyldi færður í og hann fara úr sekknum, en hann vildi ekki taka við þeim.
5 Þá kallaði Ester Hatak til sín, einn af geldingum konungs, er hann hafði sett til að þjóna henni, og bauð honum að fara til Mordekai og fá að vita, hvað þetta ætti að þýða og hverju það sætti.
6 Þá gekk Hatak til Mordekai út á bæjartorgið, er var fyrir utan konungshliðið.
7 En Mordekai sagði honum allt, sem fyrir hann hafði komið, og upphæð fjárins, er Haman hafði heitið að vega í féhirslur konungs fyrir Gyðinga, til þess að fá þeim eytt.
8 Auk þess fékk hann honum eftirrit af konungsbréfi því, er út hafði verið gefið í Súsa, um að eyða þeim. Skyldi hann sýna Ester það og segja henni frá og bjóða henni að ganga fyrir konung og biðja hann miskunnar og leita vægðar hjá honum þjóð sinni til handa.
9 Og Hatak kom og flutti Ester orð Mordekai.
10 En Ester sagði við Hatak og bauð honum að flytja Mordekai það:
11 ,Öllum þjónum konungs og fólkinu í skattlöndum konungs er kunnugt, að um hvern þann mann eða konu, sem gengur fyrir konung inn í hinn innri forgarð og er eigi kallaður, gilda ein lög, að hann skal af lífi taka, nema konungur rétti út í móti honum gullsprotann sem merki þess, að hann megi lífi halda. En ég hefi eigi verið kölluð inn fyrir konung nú í þrjátíu daga.'
12 Og Mordekai voru flutt orð Esterar.
13 Þá lét Mordekai skila aftur til Esterar: ,Ekki skalt þú ímynda þér, að þú ein af öllum Gyðingum komist undan, af því að þú ert í höll konungs.
14 Því þótt svo færi, að þú þegðir nú, þá mun Gyðingum samt koma frelsun og hjálp úr einhverjum öðrum stað, en þú og ættfólk þitt munuð farast. Hver veit nema þú sért til ríkis komin einmitt vegna þessara tíma!'
15 Þá lét Ester skila aftur til Mordekai:
16 ,Far þú og kalla saman alla Gyðinga, sem nú eru í Súsa, og fastið mín vegna, etið hvorki né drekkið í þrjá daga, hvorki nótt né dag. Ég og þjónustumeyjar mínar munum og fasta á sama hátt. Síðan mun ég ganga inn fyrir konung, þótt það sé í móti lögunum, og ef ég þá á að farast, þá ferst ég.'
17 Gekk Mordekai þá burt og fór með öllu svo sem Ester hafði boðið honum.