Nehemíabók
Kafla 4
Þá er Sanballat heyrði, að vér værum að endurreisa múrinn, varð hann reiður og gramdist honum það mjög. Og hann gjörði gys að Gyðingum
2 og talaði í áheyrn bræðra sinna og herliðs Samaríu og mælti: "Hvað hafa Gyðingarnir fyrir stafni, þeir vesalingar? Skyldu þeir hætta við það aftur? Munu þeir fórna? Ætli þeir ljúki við það í dag? Munu þeir gjöra steinana í rústahaugunum lifandi, þar sem þeir þó eru brunnir?"
3 Og Tobía Ammóníti stóð hjá honum og mælti: "Hvað sem þeir nú eru að byggja - ef refur stigi á það, þá mundi steinveggur þeirra hrynja undan honum!"
4 Heyr, Guð vor, hversu vér erum smánaðir! Lát háð þeirra koma þeim sjálfum í koll og framsel þá til ráns hernumda í öðru landi.
5 Hyl eigi misgjörð þeirra, og synd þeirra afmáist aldrei fyrir augliti þínu, því að þeir hafa egnt þig til reiði í augsýn þeirra, sem eru að byggja.
6 En vér héldum áfram að byggja múrinn og allur múrinn varð fullgjör upp að miðju, og hafði lýðurinn áhuga á verkinu.
7 En er Sanballat og Tobía og Arabar og Ammónítar og Asdódmenn heyrðu, að farið væri að gjöra við múra Jerúsalem, að skörðin væru tekin að fyllast, urðu þeir mjög reiðir.
8 Og þeir tóku sig allir saman um að koma og herja á Jerúsalem og gjöra þar spell.
9 En vér gjörðum bæn vora til Guðs vors og settum vörð gegn þeim bæði dag og nótt af ótta fyrir þeim.
10 En Gyðingar sögðu: "Burðarmennirnir gefast upp og rústirnar eru miklar og þá getum vér ekki byggt múrinn."
11 En mótstöðumenn vorir hugsuðu: "Þeir skulu ekkert vita og einskis varir verða, fyrr en vér ráðumst á þá og brytjum þá niður og gjörum enda á verkinu."
12 En er Gyðingar þeir, sem bjuggu í grennd við þá, komu og sögðu við oss sjálfsagt tíu sinnum, úr öllum áttum: "Þér verðið að koma til vor!"
13 þá lét ég staðar nema á lægstu stöðunum bak við múrinn, á sólbrunnu stöðunum, þar lét ég lýðinn nema staðar eftir ættum, með sverðum sínum, lensum og bogum.
14 Og ég litaðist um, reis upp og sagði við tignarmennina og yfirmennina og hitt fólkið: "Eigi skuluð þér óttast þá. En minnist Drottins, hins mikla og ógurlega, og berjist fyrir bræður yðar, sonu yðar, dætur yðar, konur yðar og hús yðar."
15 En er óvinir vorir heyrðu, að vér værum orðnir þess vísir og að Guð hefði ónýtt ráðagjörð þeirra, þá gátum vér allir snúið aftur að múrnum, hver til sinnar vinnu.
16 En frá þeim degi vann aðeins helmingur sveina minna að verkinu. Hinn helmingur þeirra hélt á lensunum, skjöldunum, bogunum og pönsurunum, en foringjarnir stóðu bak við alla Júdamenn, þá er voru að byggja upp múrinn.
17 En burðarmennirnir voru búnir til bardaga. Með annarri hendinni unnu þeir að verkinu, en með hinni héldu þeir á skotspjótinu.
18 Og þeir sem hlóðu voru allir gyrtir sverði um lendar sér og hlóðu þannig, en lúðursveinninn stóð hjá mér.
19 Og ég sagði við tignarmennina og yfirmennina og aðra af lýðnum: "Verkið er stórt og umfangsmikið, og vér erum tvístraðir á múrnum, langt í burtu hver frá öðrum.
20 Þar sem þér heyrið lúðurhljóminn, þangað skuluð þér safnast til vor. Guð vor mun berjast fyrir oss."
21 Þannig unnum vér að verkinu, en helmingur þeirra hélt á lensunum, frá því er morgunroðinn færðist upp á himininn og þar til er stjörnurnar komu fram.
22 Þá sagði ég og við lýðinn: "Allir skulu vera í Jerúsalem á næturnar, ásamt sveinum sínum, til þess að þeir séu vörður fyrir oss á nóttunni, en vinni að verkinu á daginn."
23 En ég og bræður mínir og sveinar mínir og varðmennirnir, er fylgdu mér, vér fórum aldrei af klæðum, og sérhver hafði skotspjót sitt við hægri hlið sér.