Nehemíabók
Kafla 1
Frásögn Nehemía Hakalíasonar. Í kislevmánuði tuttugasta árið, þá er ég var í borginni Súsa,
2 kom Hananí, einn af bræðrum mínum, ásamt nokkrum mönnum frá Júda. Spurði ég þá um Gyðinga, þá er undan komust, þá er eftir voru af hinum herleiddu, og um Jerúsalem.
3 Og þeir svöruðu mér: "Leifarnar - þeir er eftir eru af hinum herleiddu þar í skattlandinu, eru mjög illa staddir og í fyrirlitningu, með því að múrar Jerúsalem eru niður brotnir og borgarhliðin í eldi brennd."
4 Þegar ég heyrði þessi tíðindi, þá settist ég niður og grét og harmaði dögum saman, og ég fastaði og var á bæn til Guðs himnanna.
5 Og ég sagði: "Æ, Drottinn, Guð himnanna, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.
6 Lát eyra þitt vera gaumgæfið og augu þín opin, til þess að þú heyrir bæn þjóns þíns, þá er ég nú bið frammi fyrir þér bæði daga og nætur sakir Ísraelsmanna, þjóna þinna, með því að ég játa syndir Ísraelsmanna, er þeir hafa drýgt móti þér. Ég og ættfólk mitt höfum og syndgað.
7 Vér höfum breytt illa gagnvart þér og ekki varðveitt boðorðin, lögin og ákvæðin, er þú lagðir fyrir Móse, þjón þinn.
8 Minnstu orðsins, er þú bauðst Móse, þjóni þínum, segjandi: ,Ef þér bregðið trúnaði, mun ég tvístra yður meðal þjóðanna.
9 En þegar þér hverfið aftur til mín og varðveitið boðorð mín og breytið eftir þeim - þótt yðar brottreknu væru yst við skaut himinsins, þá mun ég saman safna þeim þaðan og leiða þá til þess staðar, er ég hefi valið til þess að láta nafn mitt búa þar.'
10 Því að þínir þjónar eru þeir og þinn lýður, er þú frelsaðir með miklum mætti þínum og með sterkri hendi þinni.
11 Æ, herra, lát eyra þitt vera gaumgæfið að bæn þjóns þíns og bæn þjóna þinna, er fúslega óttast nafn þitt. Farsæl þjón þinn í dag og lát hann finna meðaumkun hjá manni þessum." Ég var þá byrlari hjá konungi.