Fyrri kroníkubók
Kafla 28
Davíð stefndi til Jerúsalem öllum höfðingjum Ísraels, höfðingjum fyrir kynkvíslunum og flokkshöfðingjunum, þeim er konungi þjónuðu, þúsundhöfðingjunum og hundraðshöfðingjunum og ráðsmönnum yfir öllum eignum og fénaði konungs og sona hans, og auk þess hirðmönnunum og köppunum og öllum röskum mönnum.
2 Þá stóð Davíð konungur upp og mælti: "Hlustið á mig, þér bræður mínir og lýður minn! Ég hafði í hyggju að reisa hvíldarstað fyrir sáttmálsörk Drottins og fyrir fótskör Guðs vors, og dró að föng til byggingarinnar.
3 En Guð sagði við mig: ,Þú skalt eigi reisa hús nafni mínu, því að þú ert bardagamaður og hefir úthellt blóði.'
4 Drottinn Guð Ísraels kaus mig af allri ætt minni, að ég skyldi ævinlega vera konungur yfir Ísrael. Því að Júda hefir hann kjörið til þjóðhöfðingja, og í ættkvísl Júda ætt mína, og meðal sona föður míns þóknaðist honum að gjöra mig að konungi yfir öllum Ísrael.
5 Og af öllum sonum mínum - því að Drottinn hefir gefið mér marga sonu - kaus hann Salómon son minn, að hann skyldi sitja á konungsstóli Drottins yfir Ísrael.
6 Hann sagði við mig: ,Salómon sonur þinn, hann skal reisa musteri mitt og forgarða mína, því að hann hefi ég kjörið mér fyrir son, og ég vil vera honum faðir.
7 Og ég mun staðfesta konungdóm hans að eilífu, ef hann stöðugt heldur boð mín og fyrirskipanir, eins og nú.'
8 Og nú, að öllum Ísrael ásjáanda, frammi fyrir söfnuði Drottins og í áheyrn Guðs vors: Varðveitið kostgæfilega öll boðorð Drottins, Guðs yðar, að þér megið eiga þetta góða land og láta það ganga að erfðum til niðja yðar um aldur og ævi.
9 Og þú, Salómon, sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að Drottinn rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar. Ef þú leitar hans, mun hann gefa þér kost á að finna sig; ef þú yfirgefur hann, mun hann útskúfa þér um aldur.
10 Gæt nú að, því að Drottinn hefir kjörið þig til þess að reisa helgidómshús. Gakk öruggur að verki."
11 Síðan fékk Davíð Salómon syni sínum fyrirmynd að forsalnum og herbergjum hans, fjárhirslum, loftherbergjum, innherbergjum og arkarherberginu,
12 svo og fyrirmynd að öllu því, er hann hafði í huga: að forgörðum musteris Drottins og herbergjunum allt í kring, féhirslum Guðs húss og fjárhirslunum fyrir helgigjafirnar,
13 áætlun um flokka prestanna og levítanna og öll embættisstörf í musteri Drottins, og um öll þjónustuáhöld í musteri Drottins,
14 og áætlun um þyngd gullsins, sem á þurfti að halda í öll áhöld við hvers konar embættisstörf; og um þyngd silfuráhaldanna, sem á þurfti að halda við hvers konar embættisstörf;
15 og um efnið í gullstjakana og gulllampana, er á þeim voru, eftir þyngd hvers stjaka og lampa hans; og um efnið í silfurstjakana eftir þyngd hvers stjaka og lampa hans, eftir því sem hver stjaki var ætlaður til;
16 og um þyngd gullsins í hvert af borðunum fyrir raðsettu brauðin; og um silfrið í silfurborðin;
17 og um þyngd soðkrókanna og fórnarskálanna og bollanna úr skíru gulli og þyngd gullbikaranna og silfurbikaranna, hvers fyrir sig;
18 og um þyngd reykelsisaltarisins úr hreinsuðu gulli. Og hann fékk honum fyrirmynd að vagninum, gullkerúbunum, er breiddu út vængina og huldu sáttmálsörk Drottins.
19 "Allt þetta," kvað Davíð, "er skráð í riti frá hendi Drottins. Hann hefir frætt mig um öll störf, er vinna á eftir fyrirmyndinni."
20 Síðan mælti Davíð við Salómon son sinn: "Ver hughraustur og öruggur og kom þessu til framkvæmdar. Óttast ekki og lát eigi hugfallast, því að Drottinn Guð, Guð minn, mun vera með þér. Hann mun eigi sleppa af þér hendinni og eigi yfirgefa þig, uns lokið er öllum störfum til þjónustugjörðar í musteri Drottins.
21 Hér eru og prestaflokkar og levíta til alls konar þjónustu við musteri Guðs, og hjá þér eru menn til alls konar starfa, verkhyggnir menn, fúsir til allra starfa, og enn fremur hlýða höfðingjarnir og allur lýðurinn öllum skipunum þínum."