Fyrri Samúelsbók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31


Kafla 19

Sál talaði við Jónatan son sinn og við alla þjóna sína um að drepa Davíð. En Jónatan, sonur Sáls, hafði miklar mætur á Davíð.
2 Fyrir því sagði Jónatan Davíð frá þessu og mælti: "Sál faðir minn situr um að drepa þig. Ver því var um þig á morgun snemma og fel þig og ver þú kyrr í því leyni.
3 En ég ætla sjálfur að fara út og nema staðar við hlið föður míns á mörkinni, þar sem þú ert, og ég ætla að tala um þig við föður minn; og ef ég verð nokkurs vísari, mun ég segja þér það."
4 Jónatan talaði vel um Davíð við Sál föður sinn og sagði við hann: "Syndgast þú ekki, konungur, á Davíð þjóni þínum, því að hann hefir ekki syndgað á móti þér og verk hans hafa verið þér mjög gagnleg.
5 Hann lagði líf sitt í hættu og felldi Filistann, og þannig veitti Drottinn öllum Ísrael mikinn sigur. Þú sást það og gladdist. Hvers vegna vilt þú syndgast á saklausu blóði með því að deyða Davíð án saka?"
6 Sál skipaðist við orð Jónatans og sór: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal hann ekki verða drepinn."
7 Þá kallaði Jónatan á Davíð og tjáði honum öll þessi orð. Síðan leiddi Jónatan Davíð til Sáls, og hann var hjá honum sem áður.
8 Er ófriður hófst að nýju, fór Davíð og barðist við Filista og felldi mikinn fjölda af þeim, svo að þeir flýðu fyrir honum.
9 Þá kom illur andi frá Drottni yfir Sál; en hann sat í húsi sínu og hafði spjót í hendi sér, og Davíð lék hörpuna hendi sinni.
10 Þá reyndi Sál að reka Davíð í gegn með spjótinu upp við vegginn, en hann skaut sér undan Sál, svo að hann rak spjótið inn í vegginn. Og Davíð flýði og komst undan.
11 Hina sömu nótt sendi Sál sendimenn í hús Davíðs til þess að hafa gætur á honum, svo að hann fengi drepið hann um morguninn. En Míkal, kona hans, sagði Davíð frá og mælti: "Ef þú forðar ekki lífi þínu í nótt, þá verður þú drepinn á morgun."
12 Þá lét Míkal Davíð síga niður út um gluggann, og hann fór og flýði og komst undan.
13 Síðan tók Míkal húsgoðið og lagði í rúmið, og hún lagði blæju úr geitarhári yfir höfðalagið og breiddi ábreiðu yfir.
14 Og þegar Sál sendi menn til þess að sækja Davíð, þá sagði hún: "Hann er sjúkur."
15 Þá sendi Sál mennina aftur til að vitja um Davíð og sagði: "Færið mér hann í rúminu, til þess að ég geti drepið hann."
16 En er sendimennirnir komu, sjá, þá lá húsgoðið í rúminu og geitarhársblæjan yfir höfðalaginu.
17 Þá sagði Sál við Míkal: "Hví hefir þú svikið mig svo og látið óvin minn í burt fara, svo að hann hefir komist undan?" Míkal sagði við Sál: "Hann sagði við mig: ,Lát mig komast burt, ella mun ég drepa þig!'"
18 Davíð flýði og komst undan og kom til Samúels í Rama og sagði honum frá öllu, sem Sál hafði gjört honum. Og hann fór með Samúel og þeir bjuggu í Najót.
19 Nú var Sál sagt svo frá: "Sjá, Davíð er í Najót í Rama!"
20 Sendi Sál þá menn til að sækja Davíð. En er þeir sáu hóp spámanna, sem voru í spámannlegum guðmóði, og Samúel standa þar sem foringja þeirra, þá kom Guðs andi yfir sendimenn Sáls, svo að þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð.
21 Og menn sögðu Sál frá þessu, og hann sendi aðra menn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. Þá sendi Sál enn menn hið þriðja sinn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð.
22 Þá fór hann sjálfur til Rama. Og er hann kom að vatnsþrónni miklu í Sekó, þá spurði hann og mælti: "Hvar eru þeir Samúel og Davíð?" Og menn sögðu: "Þeir eru í Najót í Rama."
23 En er hann fór þaðan til Najót í Rama, þá kom og Guðs andi yfir hann, og var hann stöðugt í spámannlegum guðmóði alla leiðina til Najót í Rama.
24 Þá fór hann einnig af klæðum sínum, og hann var líka í spámannlegum guðmóði frammi fyrir Samúel og lá þar nakinn allan þennan dag og alla nóttina. Fyrir því segja menn: "Er og Sál meðal spámannanna?"