Dómarabókin
Kafla 13
Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Filistum í fjörutíu ár.
2 Maður er nefndur Manóa. Hann var frá Sorea, af ætt Daníta. Kona hans var óbyrja og hafði eigi barn alið.
3 Engill Drottins birtist konunni og sagði við hana: "Sjá, þú ert óbyrja og hefir eigi barn alið, en þú munt þunguð verða og son ala.
4 Og haf nú gætur á þér, drekk hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint.
5 Því sjá, þú munt þunguð verða og ala son, og skal rakhnífur ekki koma á höfuð hans, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi, og hann mun byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista."
6 Þá fór konan og sagði við mann sinn á þessa leið: "Guðsmaður nokkur kom til mín, og var hann ásýndum sem engill Guðs, ægilegur mjög; en ég spurði hann ekki, hvaðan hann væri, og nafn sitt sagði hann mér ekki.
7 Hann sagði við mig: ,Sjá, þú munt þunguð verða og son ala. Drekk því hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi til dauðadags.'"
8 Þá bað Manóa Drottin og sagði: "Æ, herra! Lát guðsmanninn, sem þú sendir, koma til okkar aftur, svo að hann megi kenna okkur, hvernig við eigum að fara með sveininn, sem fæðast á."
9 Guð heyrði bæn Manóa, og engill Guðs kom aftur til konunnar. Var hún þá stödd úti á víðavangi og maður hennar Manóa ekki hjá henni.
10 Þá hljóp konan sem skjótast og sagði manni sínum frá og mælti við hann: "Sjá, maðurinn, sem til mín kom um daginn, hefir birst mér."
11 Þá reis Manóa upp og fór á eftir konu sinni, og hann kom til mannsins og sagði við hann: "Ert þú maðurinn, sem talaði við konuna?" Hann svaraði: "Já."
12 Þá sagði Manóa: "Ef það nú kemur fram, sem þú hefir sagt, hvernig á þá að fara með sveininn, og hvað á hann að gjöra?"
13 Engill Drottins sagði við Manóa: "Konan skal forðast allt það, sem ég hefi sagt henni.
14 Hún skal ekkert það eta, er af vínviði kemur, ekki drekka vín né áfengan drykk, og ekkert óhreint eta. Hún skal gæta alls þess, er ég hefi boðið henni."
15 Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Leyf okkur að tefja þig stundarkorn, svo að við getum matbúið handa þér hafurkið."
16 En engill Drottins sagði við Manóa: "Þó að þú fáir mig til að tefja, þá et ég samt ekki af mat þínum. En ef þú vilt tilreiða brennifórn, þá fær þú hana Drottni."
17 Því að Manóa vissi ekki, að það var engill Drottins. Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Hvert er nafn þitt? Því að rætist orð þín, munum við tigna þig."
18 Engill Drottins svaraði honum: "Hví spyr þú um nafn mitt? Nafn mitt er undursamlegt."
19 Þá tók Manóa geithafurinn og matfórnina og færði það Drottni á kletti einum. Þá varð undur mikið að þeim Manóa og konu hans ásjáandi.
20 Því að þegar logann lagði upp af altarinu til himins, þá fór engill Drottins upp í altarisloganum. Og er þau Manóa og kona hans sáu það, féllu þau fram á ásjónur sínar til jarðar.
21 Eftir það birtist engill Drottins eigi framar Manóa og konu hans. Þá sá Manóa að það hafði verið engill Drottins.
22 Manóa sagði við konu sína: "Vissulega munum við deyja, því að við höfum séð Guð!"
23 En kona hans svaraði honum: "Ef Drottinn hefði viljað deyða okkur, þá hefði hann eigi þegið brennifórn og matfórn af okkur, né látið okkur sjá allt þetta, og þá hefði hann eigi nú látið okkur heyra slíka hluti."
24 Og konan ól son og nefndi hann Samson; og sveinninn óx upp, og Drottinn blessaði hann.
25 Og andi Drottins tók að knýja hann í herbúðum Dans millum Sorea og Estaól.