Fimmta Mósebók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34


Kafla 9

Heyr Ísrael! Þú fer nú í dag yfir Jórdan til þess að leggja undir þig þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þú ert, stórar borgir og víggirtar hátt í loft upp,
2 stórt og hávaxið fólk, Anakítana, sem þú þekkir og hefir sjálfur heyrt sagt um: "Hver fær staðist fyrir Anaks sonum?"
3 Vit það því nú, að það er Drottinn Guð þinn, er fyrir þér fer sem eyðandi eldur. Hann mun eyða þeim og leggja þær að velli fyrir augliti þínu, svo að þú skjótlega getir rekið þær burt og gjöreytt þeim, eins og Drottinn hefir heitið þér.
4 Þegar Drottinn Guð þinn hefir rekið þær á burt undan þér, þá mátt þú ekki segja í hjarta þínu: "Sökum míns eigin réttlætis hefir Drottinn leitt mig inn í þetta land og fengið mér það til eignar," þar eð það er vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn stökkvir þeim á burt undan þér.
5 Það er ekki vegna réttlætis þíns eða hreinskilni hjarta þíns, að þú fær land þeirra til eignar, heldur er það vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn Guð þinn stökkvir þeim á burt undan þér, og til þess að halda það loforð, er Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob.
6 Vita skaltu því, að það er ekki vegna réttlætis þíns, að Drottinn, Guð þinn, gefur þér þetta góða land til eignar, því að þú ert harðsvíraður lýður.
7 Minnstu þess og gleym því eigi, hvernig þú reittir Drottin Guð þinn til reiði í eyðimörkinni. Frá því þú fyrst lagðir af stað úr Egyptalandi og þar til, er þér komuð hingað, hafið þér óhlýðnast Drottni.
8 Hjá Hóreb reittuð þér Drottin til reiði, og Drottinn reiddist yður svo, að hann ætlaði að tortíma yður.
9 Ég var þá farinn upp á fjallið til þess að taka á móti steintöflunum, töflunum, sem sáttmálinn var á, er Drottinn hafði gjört við yður, og ég dvaldi á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur, án þess að neyta matar eða drekka vatn.
10 Drottinn fékk mér tvær steintöflur, ritaðar með fingri Guðs, og á þeim voru öll þau orð, er Drottinn hafði talað til yðar á fjallinu út úr eldinum, daginn sem þér voruð þar saman komnir.
11 Og er fjörutíu dagar og fjörutíu nætur voru liðnar, fékk Drottinn mér báðar steintöflurnar, sáttmálstöflurnar.
12 Drottinn sagði við mig: "Statt þú upp, far þú skjótt niður héðan, því að fólk þitt, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, hefir misgjört. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim; þeir hafa gjört sér steypt líkneski."
13 Og hann sagði við mig: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk.
14 Lát mig í friði, svo að ég geti gjöreytt þeim og afmáð nöfn þeirra undir himninum, og ég mun gjöra þig að sterkari og fjölmennari þjóð en þessi er."
15 Þá sneri ég á leið og gekk ofan af fjallinu, en fjallið stóð í björtu báli, og hélt ég á báðum sáttmálstöflunum í höndunum.
16 Og ég leit til, og sjá: Þér höfðuð syndgað móti Drottni, Guði yðar, þér höfðuð gjört yður steyptan kálf og höfðuð þannig skjótt vikið af þeim vegi, sem Drottinn hafði boðið yður.
17 Þá þreif ég báðar töflurnar og þeytti þeim af báðum höndum og braut þær í sundur fyrir augunum á yður.
18 Og ég varp mér niður fyrir augliti Drottins, eins og hið fyrra sinnið, fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og át ekki brauð og drakk ekki vatn, vegna allra yðar synda, sem þér höfðuð drýgt með því að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, svo að þér egnduð hann til reiði.
19 Því að ég var hræddur við þá reiði og heift, sem Drottinn bar til yðar, að hann ætlaði að tortíma yður. Og Drottinn bænheyrði mig einnig í þetta sinn.
20 Drottinn reiddist einnig mjög Aroni, svo að hann ætlaði að tortíma honum, en ég bað og fyrir Aroni í það sama sinn.
21 En synd yðar, kálfinn, sem þér höfðuð gjört, tók ég og brenndi í eldi og muldi hann vandlega í smátt, uns hann varð að fínu dufti, og duftinu kastaði ég í lækinn, sem rann þar ofan af fjallinu.
22 Enn fremur reittuð þér Drottin til reiði í Tabera, í Massa og hjá Kibrót-hattava.
23 Og þegar Drottinn sendi yður frá Kades Barnea og sagði: "Farið og takið til eignar landið, sem ég hefi gefið yður," þá óhlýðnuðust þér skipun Drottins Guðs yðar og trúðuð honum ekki og hlýdduð ekki raustu hans.
24 Þér hafið verið Drottni óhlýðnir frá því ég þekkti yður fyrst.
25 Svo féll ég fram fyrir augliti Drottins þá fjörutíu daga og fjörutíu nætur, sem ég varp mér niður, því að hann kvaðst mundu tortíma yður.
26 Og ég bað Drottin og sagði: "Drottinn Guð! Eyðilegg eigi þinn lýð og þína eign, sem þú frelsaðir með þínum mikla krafti, sem þú út leiddir af Egyptalandi með voldugri hendi.
27 Minnstu þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Jakobs! Lít ekki á þvermóðsku þessa fólks, guðleysi þess og synd,
28 svo að menn geti eigi sagt í landi því, sem þú leiddir oss út úr: ,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þá inn í landið, sem hann hafði heitið þeim, og af því að hann hataði þá, hefir hann farið með þá burt til þess að láta þá deyja í eyðimörkinni.'
29 Því að þín þjóð eru þeir og þín eign, sem þú út leiddir með miklum mætti þínum og útréttum armlegg þínum."