Fimmta Mósebók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34


Kafla 2

Síðan snerum vér á leið og héldum inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins, eins og Drottinn hafði boðið mér, og vér fórum í kringum Seírfjöll marga daga.
2 Þá sagði Drottinn við mig:
3 "Þér hafið farið nógu lengi í kringum fjöll þessi. Haldið nú í norður.
4 En bjóð þú lýðnum og seg: ,Þér farið nú yfir landamerki bræðra yðar, Esaú sona, sem búa í Seír, og þeir munu verða hræddir við yður. En gætið þess vandlega
5 að gjöra þeim engan ófrið, því að ekki mun ég gefa yður svo mikið sem þverfet af landi þeirra, því að ég hefi gefið Esaú Seírfjöll til eignar.
6 Mat skuluð þér kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið eta, og vatn skuluð þér einnig kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið drekka.
7 Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur. Hann hefir borið umhyggju fyrir för þinni um þessa miklu eyðimörk. Í fjörutíu ár hefir Drottinn Guð þinn nú verið með þér; ekkert hefir þig skort.'"
8 Síðan héldum vér áfram burt frá bræðrum vorum Esaú sonum, sem búa í Seír, burt frá veginum yfir sléttlendið, burt frá Elat og Esjón Geber, og beygðum við og héldum leiðina til Móabseyðimerkur.
9 Þá sagði Drottinn við mig: "Leitið eigi á Móabíta og hefjið engan ófrið við þá, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi þeirra til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum Ar til eignar.
10 (Emítar bjuggu þar forðum, mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar.
11 Þeir voru og taldir Refaítar, eins og Anakítar, en Móabítar kölluðu þá Emíta.
12 Hórítar bjuggu og forðum í Seír, en Esaú synir hröktu þá burt og eyddu þeim, en settust sjálfir að löndum þeirra, eins og Ísrael gjörði við eignarland sitt, er Drottinn hafði gefið þeim.)
13 Takið yður nú upp og farið yfir Seredá." Og vér fórum yfir Seredá.
14 Í þrjátíu og átta ár vorum vér á leiðinni frá Kades Barnea, til þess er vér fórum yfir Seredá, uns öll kynslóðin, hinir vopnfæru menn, var dáin úr herbúðunum, eins og Drottinn hafði svarið þeim.
15 Hönd Drottins var einnig á móti þeim, svo að hann eyddi þeim úr herbúðunum, uns enginn þeirra var eftir.
16 En er allir vopnfærir menn af lýðnum voru dánir,
17 þá mælti Drottinn til mín þessum orðum:
18 "Þú fer í dag um land Móabíta, fram hjá Ar,
19 og munt þú þá koma í nánd við Ammóníta, en eigi skalt þú leita á þá né gjöra þeim nokkurn ófrið, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi Ammóníta til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum það til eignar.
20 (Það er og talið land Refaíta. Refaítar bjuggu þar forðum og kölluðu Ammónítar þá Samsúmmíta,
21 mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar. En Drottinn eyddi þeim fyrir Ammónítum, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað,
22 eins og hann gjörði fyrir Esaú sonu, sem búa í Seír, þá er hann eyddi Hórítum fyrir þeim, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað, og er svo enn í dag.
23 Svo var og um Avíta, sem bjuggu í þorpum allt til Gasa. Kaftórítar komu frá Kaftór og eyddu þeim og settust sjálfir að löndum þeirra.)
24 Takið yður nú upp og haldið af stað og farið yfir Arnoná. Sjá, ég hefi gefið á þitt vald Amorítann Síhon, konung í Hesbon, og land hans. Tak nú til að vinna landið og legg til orustu við hann.
25 Skal ég láta það hefjast í dag, að öllum þjóðum undir himninum standi af þér ótti og hræðsla. Ef þær heyra þig nefndan á nafn, skulu þær fá í sig hræðslu og kvíða fyrir þér."
26 Þá gjörði ég menn úr Kedemóteyðimörk á fund Síhons, konungs í Hesbon, með svolátandi friðarorð:
27 "Leyf mér að fara um land þitt. Mun ég fara rétta þjóðleið og skal ég eigi sveigja af til hægri né vinstri.
28 Mat munt þú selja mér fyrir silfur, að ég megi eta, og vatn skalt þú láta mig fá fyrir silfur, að ég megi drekka. Leyf mér aðeins að fara um fótgangandi -,
29 eins og þeir leyfðu mér, Esaú synir, sem búa í Seír, og Móabítar, sem búa í Ar -, uns ég fer yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss."
30 En Síhon, konungur í Hesbon, vildi ekki leyfa oss að fara um land sitt, því að Drottinn Guð þinn herti anda hans og gjörði hjarta hans þverúðarfullt, af því að hann vildi gefa hann í þínar hendur, eins og nú er fram komið.
31 Drottinn sagði við mig: "Sjá, ég hefi byrjað að selja þér í hendur Síhon og land hans. Tak nú til að vinna það, svo að þú megir eignast land hans."
32 Fór Síhon þá í móti oss með öllu liði sínu og átti orustu við oss hjá Jahas.
33 En Drottinn Guð vor gaf hann á vort vald, svo að vér unnum sigur á honum, sonum hans og öllu liði hans.
34 Þá unnum vér og á sama tíma allar borgir hans og gjöreyddum hverja borg að karlmönnum, konum og börnum. Vér létum engan undan komast.
35 Fénaðinn einn tókum vér að herfangi, svo og ránsfenginn úr borgunum, er vér höfðum unnið.
36 Frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og frá borginni, sem liggur í dalnum, alla leið til Gíleað var engin sú borg, er oss væri ókleift að vinna. Drottinn Guð vor gaf þær allar á vort vald.
37 Aðeins komst þú ekki nærri landi Ammóníta, héraðinu fram við Jabboká, borgunum í fjalllendinu, né nokkru því, sem Drottinn Guð vor hafði bannað oss.