Fyrsta Jóhannesarbréf
Kafla 1
Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins.
2 Og lífið var opinberað, og vér höfum séð það og vottum um það og boðum yður lífið eilífa, sem var hjá föðurnum og var opinberað oss.
3 Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist.
4 Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
5 Og þetta er boðskapurinn, sem vér höfum heyrt af honum og boðum yður: "Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum."
6 Ef vér segjum: "Vér höfum samfélag við hann," og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann.
7 En ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd.
8 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki synd," þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.
9 Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.
10 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki syndgað," þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss.