Síðara Pétursbréf
Kafla 1
Símon Pétur, þjónn og postuli Jesú Krists, heilsar þeim, sem hlotið hafa hina sömu dýrmætu trú og vér fyrir réttlæti Guðs vors og frelsara vors Jesú Krists.
2 Náð og friður margfaldist yður til handa með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum.
3 Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni með þekkingunni á honum, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og dáð.
4 Með því hefur hann veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakendur í guðlegu eðli, er þér hafið komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur.
5 Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu,
6 í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni,
7 í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.
8 Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.
9 En sá, sem ekki hefur þetta til að bera, er blindur í skammsýni sinni og hefur gleymt hreinsun fyrri synda sinna.
10 Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa. Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa.
11 Á þann hátt mun yður ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists.
12 Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna yður á þetta, enda þótt þér vitið það og séuð staðfastir orðnir í þeim sannleika, sem þér nú hafið öðlast.
13 Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda yður vakandi með því að rifja þetta upp fyrir yður.
14 Ég veit, að þess mun skammt að bíða, að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér.
15 Og ég vil einnig leggja kapp á, að þér ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa.
16 Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans.
17 Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á."
18 Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.
19 Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.
20 Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér.
21 Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.