Fyrra Pétursbréf
Kafla 1
Pétur postuli Jesú Krists heilsar hinum útvöldu, sem eru dreifðir sem útlendingar í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu,
2 en útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans til að hlýðnast Jesú Kristi og verða hreinsaðir með blóði hans. Náð og friður margfaldist með yður.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum,
4 til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.
5 Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.
6 Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum.
7 Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.
8 Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði,
9 þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar.
10 Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð, sem yður mundi hlotnast.
11 Þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti, þá er hann vitnaði fyrirfram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir.
12 En þeim var opinberað, að eigi væri það fyrir sjálfa þá, heldur fyrir yður, að þeir þjónuðu að þessu, sem yður er nú kunngjört af þeim, sem boðuðu yður fagnaðarerindið í heilögum anda, sem er sendur frá himni. Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.
13 Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.
14 Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar.
15 Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað.
16 Ritað er: "Verið heilagir, því ég er heilagur."
17 Fyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar.
18 Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar,
19 heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.
20 Hann var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar.
21 Fyrir hann trúið þér á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs.
22 Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið því hver annan af heilu hjarta.
23 Þér eruð endurfæddir, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs, sem lifir og varir.
24 Því að: Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur.
25 En orð Drottins varir að eilífu. Og þetta orð er fagnaðarerindið, sem yður hefur verið boðað.