Títusarbréf

1 2 3


Kafla 3

Minn þá á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, hlýðnir og reiðubúnir til sérhvers góðs verks,
2 lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.
3 Því að þeir voru tímarnir, að vér vorum einnig óskynsamir, óhlýðnir, villuráfandi, í ánauð hvers konar fýsna og lostasemda. Vér ólum aldur vorn í illsku og öfund, vorum andstyggilegir, hötuðum hver annan.
4 En er gæska Guðs frelsara vors birtist og elska hans til mannanna,
5 þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja.
6 Hann úthellti anda sínum yfir oss ríkulega fyrir Jesú Krist, frelsara vorn,
7 til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs.
8 Það orð er satt, og á þetta vil ég að þú leggir alla áherslu, til þess að þeir, sem fest hafa trú á Guð, láti sér umhugað um að stunda góð verk. Þetta er gott og mönnum nytsamlegt.
9 En forðast þú heimskulegar þrætur og ættartölur, deilur og lögmálsstælur. Þær eru gagnslausar og til einskis.
10 Þrætumanni skalt þú sneiða hjá, er þú hefur einu sinni og tvisvar áminnt hann.
11 Þú veist að slíkur maður er rangsnúinn og syndugur. Hann er sjálfdæmdur.
12 Þegar ég sendi Artemas til þín eða Týkíkus, kom þá sem fyrst til mín í Nikópólis, því þar hef ég ásett mér að hafa vetrarvist.
13 Greið sem best för þeirra Senasar lögvitrings og Apollóss, til þess að þá bresti ekkert.
14 En vorir menn eiga og að læra að stunda góð verk til nauðsynjaþarfa, til þess að þeir séu ekki ávaxtalausir.
15 Allir, sem hjá mér eru, senda þér kveðju. Heilsa þeim, sem oss elska í trú. Náð sé með yður öllum.